06.09.1919
Neðri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í C-deild Alþingistíðinda. (3424)

108. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi í Siglufirði

Stefán Stefánsson:

Jeg býst við, að nefndin líti svo á, að ef sala fer fram, sje vafasamt, hvort nægilegt verð muni fást fyrir jarðirnar. En hinu neitar nefndin ekki, að kauptúnum sje nauðsyn á að fá keypt land, og þá einkum Siglufirði og öðrum þeim bæjum, sem eru eða hefir verið á síðustu árum í hröðum vexti. Aðalástæða nefndarinnar hlýtur að byggjast á óttanum fyrir því, að landssjóður skaðist á sölunni, að sæmilegt verð verði ekki greitt fyrir landið. Þessi ótti virðist mjög ástæðulítill, því þótt þeim dómkvöddu matsmönnum væri ekki fulltreystandi, þá hefir stjórnin það vitanlega í hendi sinni, hvort hún selur fyrir það verð, sem þeir ákveða, eða ekki. Annars býst jeg við, að matsverðið yrði ákveðið svo sanngjarnt og rjett, sem frekast væri auðið. En ef stjórnin liti öðruvísi á það mál, ef hún teldi verðið of lágt, þá er enginn, sem skyldar hana til að selja fyrir það verð.

Háttv. frsm. (M. G.) sagði, að erfitt væri að neita öðrum, ef Siglufirði yrði selt, og það er rjett; þó mætti hugsa sjer þar undantekningar. En af því leiðir þá líka, að erfitt er að neita Siglufirði, þegar öðrum hefir verið selt. En það hefir verið gert, og benti hv. frsm. (M. G.) á það sjálfur. Hjer er því ekki um neina nýja stefnu að ræða. Hjer er ekki um það að tala, að breyta venju eða skapa fordæmi, heldur að eins það, að fylgja sköpuðu fordæmi. Það er ekki verið að mælast til þess, að Siglufirði veitist ívilnanir, heldur að eins að hann fái að njóta sama rjettar og ýms önnur kauptún. það er ætlast til þess, að fult tillit sje tekið til verðmætis landsins, og verðið ákveðið samkvæmt því.

Þá hefir nefndin fundið málinu það til foráttu, að það væri illa undirbúið, þar sem bæði vantaði nákvæma skýrslu um lóðagjöldin og eins umsögn kirkjustjórnar um söluna. Jeg hefi látið háttv. frsm. (M. G.) í tje símskeyti frá prestinum á Hvanneyri um upphæð lóðargjaldanna, og eru þau um 6600 kr. þá má og geta þess, að hjeraðsfundur hefir samþykt söluna. og við 1. umr. málsins skýrði jeg frá því, að biskup væri málinu meðmæltur, en til þess að hv. deild geti fengið enn nánari upplýsingar um álit hans, þá hefi jeg brjef frá biskupi, sem jeg ætla að lesa hjer upp, með leyfi hæstv. forseta.

Brjefið hljóðar þannig:

„Samkvæmt ósk yðar, háttvirti herra alþingismaður, vil jeg viðvíkjandi frumvarpi því um sölu á Hvanneyrarlandi til Siglufjarðarkaupstaðar, sem þjer. þingmenn Eyfirðinga, hafið til flutnings á yfirstandandi Alþingi, taka það fram sem hjer fer á eftir:

Þótt jeg sje yfirleitt mótfallinn allri sölu prestssetra, og þá ekki síst á prestaköllum, sem haldast eiga óbreytt áfram, svo sannfærður sem jeg er um, að prest um sje hollara vegna afkomunnar að hafa búskap en að lifa sem tómthúsmenn í kaupstað, þá finst mjer það sölumál, sem hjer liggur fyrir, horfa öðruvísi við en önnur samskonar mál. Hjer er sem sje að ræða um kaup á landi prestssetursins utan túns og prestinum áskilinn rjettur til haglendis fyrir skepnur sínar, svo og svarðarafnot í Leyningi eftir þörfum. Prestinum á Hvanneyri verður því eftir sem áður mögulegt að hafa nokkurn búskap og jeg hygg einmitt mátulega stóran fyrir prest í jafnfjölmennu prestakalli og Hvanneyrarprestakall er orðið við hinn mikla vöxt Siglufj.kaupstaðar á síðari árum. Hins vegar liggur í augum uppi, að það er beint skilyrði fyrir þrifum hins unga kaupstaðar, að hann eignist sjálfur lóðina, sem hann stendur á, og fái auk þess land til ræktunar og beitar, sem þrif bæjarfjelagsins heimta. Jeg fæ því ekki betur sjeð en að öll sanngirni mæli með því, að hinn ungi kaupstaður fái það land, sem farið er fram á í frumvarpinu, og þar sem prestinun á Hvanneyri eru með sölu landsins ekki gerðar neinar þungar búsifjar, er jeg fyrir mitt leyti því meðmæltur, að frumvarpið fyr eða síðar nái fram að ganga.“

Þetta er þá álit biskups, og kemst hann ótvírætt að þeirri niðurstöðu, að ekki sje sanngjarnt að neita um söluna. Sem sagt, öll gögn málsins mæla með sölunni, og ástæður nefndarinnar um viðsjárvert fordæmi og ónógan undirbúning eru hreint og beint vindhögg út í loftið. En svo jeg víki aftur að aðalástæðu nefndarinnar, um að ekki fáist sæmilegt verð, þá vita hv. nefndarmenn, að stjórnin hefir verðið alveg í hendi sinni, og á hina hliðina, að Siglufirði er þetta svo mikið nauðsynjamál, að hann verður að leggja alt kapp á að fá keypt, jafnvel þótt kaupverðið mætti fremur álitast of hátt en hið gagnstæða. Menn kunna að óttast það, að lóðir hækki enn, og geti því landið selt sjer í skaða, en það má gera ráð fyrir, að matsmenn meti alt sanngjarnlega, taki fult tillit til þess, að ýmsar lóðir, sem leigðar hafa verið fyrir mörgum árum síðan, eru of lágt leigðar, og sömuleiðis líti á það, hvers vænta má í nánustu framtíð, hvað eftirspurn lóða og viðgang bæjarfjelagsins snertir. En hins vegar tel jeg litla von til þess, að lóðir hækki þar mikið fram úr því, sem nú er. Nauðsyninni, sem er á því, að bæjarfjelagið fái þetta land keypt, ætla jeg ekki að lýsa, því bæði skilja háttv. þingdm. það mjög vel, og svo hefir það verið gert rækilega í greinargerð með frv. á þgskj. 212, og læt jeg mjer því nægja að vísa til þess.