10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í C-deild Alþingistíðinda. (3433)

148. mál, stofnun verslunarskóla Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal ekki segja, hvort tími er til þess kominn, að stofnaður sje verslunarskóli fyrir alt landið, og honum haldið uppi af opinberu fje. Jeg vildi að eins skjóta því til háttv. flutnm., að nú er til þess ætlast, að öll mentamál landsins verði tekin fyrir, og stjórnin athugi þau með aðstoð sjerfróðra manna, og virðist þá rjettast að láta þetta mál fylgjast með. Þó hjer sje um sjerskóla að ræða, þá ætti nefndin, sem skipuð verður í mentamálin, eða þeir menn, sem falið verður að athuga þau, eins að geta tekið þetta mál með, Jeg sje ekki, að mikil hætta geti af því stafað, þó stofnun þessa skóla dragist og verði athuguð í sambandi við annað. Það er ekki því til að dreifa, að kensla falli niður, því nú eru tveir skólar í þessari grein. Jeg sje ekki ástæðu til að skilja þennan skóla undan, því ætlast er til, að sjerskólar verði athugaðir, svo sem búnaðarskólinn o. fl., og hefir þetta mál rjettilega verið borið saman við þá. Auk þess er málið svo seint fram komið, að örðugt verður að afgreiða það á þessu þingi; jeg býst ekki við, að það standi mjög lengi hjeðan af.