10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í C-deild Alþingistíðinda. (3434)

148. mál, stofnun verslunarskóla Íslands

Pjetur Jónsson:

Jeg tel það gott, að þessi hugmynd er hjer fram komin í frv.formi. það hefir áður verið umtal um það, að koma þyrfti á stofn góðum verslunarskóla, og er jeg einnig þeirrar skoðunar. En þó get jeg ekki verið meiri hl. fjárveitinganefndar sammála um það, að nauðsyn sje að ákveða hann með lögum nú. Jeg lít svo á, að við sjeum ekki nægilega undirbúnir til að setja á stofn ríkisskóla nú, svo fullkominn sem hann á að vera. Slíkur skóli þarf fyrst og fremst að hafa nægilegt húsrúm, auk margs annars, sem skortur er á. það veitir heldur ekki af að undirbúa þetta mál vel, og getur sá undirbúningur komið með tímanum. Mjer skilst, að hjer sje um nokkurskonar verslunarháskóla (Akademi) að ræða, og eigi hann því að vera eins fullkominn og samskonar skólar með öðrum þjóðum. Jeg held, að okkur sje nú um megn, þegar í stað, að stofna slíkan skóla, enda annað brýnna, sem fyr kallar að. Þó það sje þessu máli óskylt að sumu leyti, þá ætla jeg að minnast á skóla, sem búið er að ákveða með lögum, en ekki er farið að stofna, því síður starfrækja, og það er húsmæðraskólinn á Norðurlandi. Meðan ekki er fært að veita fje til þess skóla, sje jeg ekki ástæðu til að setja fleiri skóla á pappírinn. Auk þess, sem jeg hefi nú talið, mundi verða skortur á kenslukröftum við skólann. Hjer er að vísu vísir til verslunarskóla, en jeg hygg, að þeir menn, sem þar vinna, væru ekki færir um að standa fyrir verslunarháskóla, sem ætti að vera eins fullkominn og slíkir skólar í öðrum löndum. En þessir kenslukraftar geta komið með tímanum, þótt þeir sjeu ekki nú fyrir hendi. Sama er um húsnæðið að segja, eins og jeg drap á áðan. Vitanlega væri hægt að hola þessum skóla niður í leigðar íbúðir, eins og gert hefir verið með verslunarskólann, en þó gengið tregt. En hitt er annað mál, hvort menn teldu það sæmandi fyrir ríkisskóla.

Hv. frsm. (M. Ó.) taldi kostnaðinn ekki ægilegan og benti á það, að nú væri veittur styrkur til tveggja verslunarskóla. En sá styrkur samanlagður mundi naumast hrökkva til rekstrarkostnaðar, og auk þess bættist við stofnkostnaður, sem yrði allmikill, eins og nú stendur. Viðvíkjandi samvinnuskólanum er það að segja, að hann er ekki eingöngu verslunarskóli; hann hefir annað verkefni þess utan, og má því ekki telja styrkinn til hans að öllu leyti með því, sem veitt er til verslunarmentunar yfirleitt.

Ef þessi skóli kæmist upp, þrátt fyrir þá annmarka, sem jeg hefi talið, þá er eins enn að gæta, og það er, að ekki mundu eins margir sækja hann og verslunarskólann nú. Inntökuskilyrðið yrði að vera strangt, og er í frv. gert ráð fyrir gagnfræðaprófi, en það tekur 3 ár; auk þess stæði skólinn í 3 ár, og tæki þá 6 ár að ganga gegnum báða þá skóla. Það gætu nú ekki jafnmargir haft tíma nje tækifæri til að sækja hann, eins og ella sæktu verslunarskólann núverandi og samvinnuskólann, og sumir, sem vildu afla sjer verslunarmentunar, þyrftu því minni skóla eða námsskeið. Á Brochs-skólanum í Danmörku er það svo, að gagnfræðapróf er heimtað sem inntökuskilyrði, og stendur skólinn sjálfur í 2 ár. En svo eru þar einnig kveldskólar fyrir verslunarmenn, og býst jeg við, að eins yrði hjer. Það væri ekki heldur hægt að afnema styrkinn til samvinnuskólans til fulls, eins og jeg drap á áðan. Hann hefir sitt sjerstaka hlutverk að vinna, og það hyrfi ekki, þótt verslunarháskóli kæmist á. Þeir, sem ætluðu sjer að snúa sjer að kaupfjelagsstörfum, gætu ekki gengið á slíkan skóla eingöngu.

Þetta gerir það að verkum, að við getum ekki allir nefndarmenn fallist á að halda þessu máli nú fram, en hins vegar er gott, að þessi hreyfing lifi. Því miður geta ekki jafnöflugar stoðir runnið undir þennan skóla hjer sem Brochsskóla í Kaupmannahöfn, sem að vísu er ekki ríkisskóli. En jeg get hugsað mjer, að sá vísir, sem er til verslunarskóla hjer, geti dafnað svo, að hann gæti síðar meir orðið stoð undir æðri skóla, ef menn láta sjer lynda í bili það, sem við höfum nú.