10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í C-deild Alþingistíðinda. (3435)

148. mál, stofnun verslunarskóla Íslands

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg hefi ekki margt að athuga við það, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði um málið, nema um dráttinn, sem hann vill hafa á framkvæmd þess. Hann barði því við, að nú ætti að fara fram endurskoðun og rannsókn á öllum mentamálum landsins, og vildi hann láta bíða með skipun þessa máls þangað til þeirri rannsókn væri lokið. En þess er að gæta, að 2 verslunarskólar eru þegar komnir upp, og hjer ekki hugsað um annað en að gera einn skóla úr báðum; en bíða má með að semja fullnaðarreglugerð fyrir skóla þennan, og koma föstu framtíðarfyrirkomulagi á hann. þangað til komist hefir verið að ákveðinni niðurstöðu um skipun mentamála í landinu yfirleitt. Má þá alveg eins breyta til með skólann, ef betur þykir hlýða þótt hann sje þegar stofnaður, og meira að segja, þá verður á meiri reynslu að byggja en ella. Jeg held, að það leiði ekki til neins góðs að draga málið á langinn og fresta sameiningu skólanna; þvert á móti. Það er mjög hætt við, að þessir tveir skólar, sem nú starfa, geri fremur að ala á ríg en að draga úr honum, og er það illa farið. Það má að vísu vera, að þeir, sem nú halda uppi skólastofnunum þeim, sem nú starfa, vilji og gera það framvegis. Þeim verður ekki bannað það, en ríkið á ekki að styðja þá til þess.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) fór að tala um mál þetta, líklega til að láta menn vita, að hann væri ekki með frv.; hann var og andstæður málinu í nefndinni. Honum þykir um of hrapað að málinu og undirbúningstíminn of stuttur og reynslutíminn. Nú er það vitanlegt, að verslunarskóli hefir staðið hjer allmörg ár, og mætti ætla, að hann væri kominn það af gelgjuskeiðinu, að óhætt sje að færa hann í fullorðinsgerfi nú þegar.

Hv. þm. (P. J.) blandaði þessu máli saman við annað mál óskylt því, stofnun húsmæðraskóla, og vildi láta hann ganga fyrir. En af því, að nú er ekki um það að ræða, sje jeg enga ástæðu til að fara að rökræða það mál við hv. þm. (P. J.).

Til þess að gera mál þetta ískyggilegt talaði hv. þm. (P. J.) um skort á góðum kenslukröftum við verslunarskóla. Hv. þm. (P. J.) gerir alt of mikið úr þessu. Jeg veit ekki betur en að við höfum 3–4 verslunarkandidata hjer í bæ, og að undanförnu hafa nokkrir íslenskir stúdentar gengið á verslunarháskólann í Kaupmannahöfn, og sumir þeirra þegar lokið prófi þar, svo að úr þessu ætti ekki að þurfa að bera við kennaraskorti. Eigi mundi að svo stöddu þurfa að byggja hús handa skólanum; hann mundi geta fengið húsrúm áfram þar, sem verslunarskólinn er nú. Mun þar vera pláss handa 70–80 nemendum, og á meira er ekki þörf. Háttv. þm. (P. J.) vildi láta kennara æfast í kenslu áður en skólinn væri stofnaður; en jeg hygg, að ef þeir kennarar sumir, sem að undanförnu hafa kent við skólann, hafa ekki nú þegar fengið nóga kennaraæfingu, þá muni þeir aldrei fá hana; auk þess verður það sjálfsagt með þennan skóla sem aðra skóla, að eigi verði það jafnan æfðir kennarar, sem til hans ráðast. Eitt er víst, það þarf fleiri kennara til að kenna við tvo skóla en einn, og rekstrarkostnaður þeirra meiri en ef alt væri sameinað. Þá gaf háttv. þm. (P. J.) þá upplýsingu, sem mjer var ókunnugt um áður, að samvinnuskólinn væri í raun og veru ekki verslunarskóli. Jeg hygg, að ef þingm. hefði verið kunnugt um þetta, þá mundi hafa verið meira en vafasamt, hvort hann hefði fengið meiri hl. atkv. hjer í deild fyrir þeim styrk, sem honum hlotnaðist við atkvgr. hjer. — Þeir, sem ætla að standa fyrir samvinnufjelagsskap, þurfa að kunna sömu reikningsaðferðir og bókfærslu sem aðrir verslunarmenn, og þeir þurfa yfirleitt að hafa lært eins mikið í verslunarfræðum eins og þeir. Auk þess má búast við, að menn frá samvinnuskólanum vilji, sumir hverjir, ráða sig hjá kaupmönnum, og þá þurfa þeir að hafa lært ekki minna en þeir, sem í hinn verslunarskólann hafa gengið, ef þeir eiga að geta búist við að standa þeim jafnt að vígi. Þá er um kostnaðinn að ræða. Jeg veit, að hann muni verða einhverju meiri í hinum fyrirhugaða ríkisskóla en nú er hann áætlaður handa verslunarskólanum og samvinnuskólanum. Öllum ber saman um, að ríkinu beri að styrkja sjermentaskóla, og þá að sjálfsögðu þennan líka.

Það er talið títt bragð þeirra, sem vilja hindra framgang einhvers máls, að þeir telja það að vísu gott, en segja, að það sje ekki tímabært að koma því fram í bili, og því hafi það best af því, að því sje frestað. Jeg segi ekki, að hv. þm. S.-Þ. (P. J.) hafi slíkt bak við eyrað, heldur varpi þessu fram sem almennri athugasemd; honum getur gengið gott eitt til, að koma með frestunartill. sína.

Jeg vona, að hv. þingdm. sjeu á sömu skoðun sem flm. málsins, enda veit jeg, að margir þeirra eru það, um það, að þessi breyting, sem hjer ræðir um, þurfi að komast sem fyrst á; slíkt sje ómissandi fyrir verslunarstjettina og þar af leiðandi fyrir landið í heild sinni.