10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í C-deild Alþingistíðinda. (3437)

148. mál, stofnun verslunarskóla Íslands

Pjetur Jónsson:

Jeg held, að hv. þm. Dala. (B. J.) hefði getað sparað sjer alveg þessa löngu ræðu sína, því að hún var naumast annað en nánari útfærsla á því, sem hv. frsm. (M. Ó.) sagði, og sömuleiðis á greinargerð frv., að svo miklu leyti, sem hv. þm. (B. J.) fór ekki með rugl og vitleysu.

Jeg vil þó minnast á eitt í sambandi við það, sem hann taldi mig hafa sagt, að kaupfjelagsmenn myndu ekki ganga í skóla þennan.

Jeg sagði að eins, að þeir mundu ekki verða eins margir, sem kæmust í þennan skóla, eins og í samvinnuskólann og verslunarskólann báða til samans, vegna þess, hve dýrt það verður.

Hitt efast jeg ekki um, að þeir, sem vildu afla sjer rækilegrar þekkingar, myndu ganga í þennan skóla, t. d. þeir, sem ætla sjer að gera kaupfjelagsskap að lífsstarfi sínu. Auðvitað mega þeir ekki hafa lakari undirbúning en aðrir verslunarmenn. Um þetta þarf ekki neitt að prjedika, því að það er alment viðurkent.

Þá var dálítið óheppilega valið dæmið, sem hv. þm. (B. J.) tók til sönnunar því, hve skortur á verslunarþekkingu gerði mikinn baga. Hann sagði, að allmörg kaupfjelög hefðu farið á höfuðið til að byrja með, fyrir þær sakir. En slík fjelög eru alls ekki mörg, svo að það sannar ekki neitt.

En jeg, sem þykist þekkja sögu kaupfjelaganna miklu betur en hv. þm. (B. J.), get frætt hann á því, að svo undarlega vill til, að einmitt þeim fáu kaupfjelögum, sem fóru á höfuðið, var einkum stjórnað af „verslunarfróðum“ mönnum, svo kölluðum

Þar, sem bændurnir hafa svo að segja verið teknir frá orfinu, til að koma þeim á fót, hefir verið fult eins vel að jafnaði.

Þessi mótmæli mín eiga þó ekki að sýna það, að jeg telji kaupfjelagsforstjóra og starfsmenn þurfa minni sjerþekkingu en aðra verslunarmenn. Jeg álit þvert á móti, að þeir þurfi meiri þekkingu en verslunarmenn hingað til hafa haft. Hv. þm. Dala. (B. J.) hefir því alveg farið í gönur hjer.

Háttv. frsm. (M. Ó.) kvaðst vilja tala sem styst og taka að eins fram aðalatriðin. Þeirri reglu hefi jeg líka fylgt í ræðu minni um þetta mál; jeg tók að eins fram aðalatriðin.

En jeg hjelt, að hann vildi ræða þetta mál vingjarnlega og með hægð, en þar sem hann talaði um, að jeg hefði tekið upp eitthvert óbeint þrautaráð til að hamla framgangi málsins, þá get jeg ekki talið það vingjarnleg ummæli.

Jeg veit ekki betur en jeg hafi sagt blátt áfram það, sem jeg meina, og ekki á neinn hátt annan reynt að hamla framgangi frv., hvorki með viðtali við einstaka þm. nje öðru.

Jeg vil með þetta mál, eins og önnur, að það standi eða falli eftir því, hvernig menn líta á það.

En jeg fyrir mitt leyti get ekki mælt með því, sem jeg tel ekki rjett, og jeg lít svo á, sem þetta mál bæði eigi og megi bíða.

Það var talið óskylt mál, þegar jeg mintist á húsmæðraskólann í sambandi við þetta, og mjer álasað fyrir að draga hann í þessar umr.

En jeg lít nú svo á, að hjer sje um nokkuð skyld mál að ræða, þar sem hvorttveggja eru skólar. Því mun heldur ekki verða neitað, að húsmæður til sveita hafi fulla þörf þekkingar á sínu sviði, engu síður en verslunarmenn á sínu. En húsmæðraefnin hafa á hinn bóginn miklu minna fje og færri tækifæri til að afla sjer þeirrar þekkingar en verslunarstjettin. Sá skóli ætti því að vera mönnum mikið meira kappsmál.

En nú er það vitanlegt, að ekki er hægt að siga stjórninni til að gera alt í einu. Hún verður að haga gerðum sínum með ráðdeild, engu síður en bóndinn, sem ekki getur bygt öll sín hús sama árið, heldur verður jafnvel að verja til þess mörgum árum.

Hjer er um tvö fyrirtæki að ræða. Annað verður því að ganga á undan, og þá auðvitað það, sem nauðsynlegra er.

Jeg get líka hugsað mjer, að ýmislegt fleira ætti að ganga á undan skólastofnun þessari, t. d. það, að kaupa varnarskipið, sem hjer hefir verið rætt um.

En þessi orð mín öll ber ekki að skoða sem úrtölur til að eyðileggja hugmyndina.

Það, sem hv. frsm. (M. Ó.) drap á, hin óheppilegu áhrif, sem núverandi verslunarskólar hafi, að sögn, haft á nemendur sína, er alt of mikið bygt á slúðursögum, til þess að vert sje að ræða það hjer.