10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í C-deild Alþingistíðinda. (3438)

148. mál, stofnun verslunarskóla Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er ekki rjett hjá hv. þm. Dala. (B. J.), að það hafi verið misskilningur hjá mjer, að þetta gæti heyrt undir rannsókn þá, sem gera á á fræðslumálum yfirleitt. Nefndin hefir einmitt tekið sjerskóla upp í þær till. sínar, t. d, búnaðarskólana.

Það var því ekki nema eðlilegt, að jeg benti á þetta.

Annars skil jeg ekki, af því að hjer er til verslunarskóli, að svo mikil nauðsyn sje á að flýta þessu máli.

Annarsstaðar eru þessir skólar fyrir verslunarmenn aðallega „privat“-skólar. Held jeg því, að það mætti einnig nægja hjá okkur, að minsta kosti um stundarsakir.

Hitt þykir víða meiri nauðsyn, að verslunarmenn leiti sjer fræðslu í öðrum löndum, því ekki síst í verslunarsökum er mönnum nauðsynlegt að kunna deili á tilhögun annara þjóða.

Svo er t. d. á Norðurlöndum og sjerstaklega á Þýskalandi, að menn keppa sem lengst í því, að verslunarmenn afli sjer fræðslu utanlands.

Annars skal jeg ekki fara frekar út í þetta mál; að eins vil jeg benda á það aftur, að mjer þykir það næsta ólíklegt, að þetta mál verði afgreitt frá þinginu í lagaformi, þar sem það er svo seint fram komið.