04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

33. mál, tollalög

Gísli Sveinsson:

Hv. frsm. (E. Árna.) brást reiður við er jeg sagði, að hann hefði haft þær getsakir í frammi að hv Ed. mundi fella frv. þetta, ef því yrði breytt hjer í deild. En þegar hann hugsar sig betur um, mun hann ranka við sjer og minnast þess, að hann gaf þetta fyllilega í skyn. Hann sagði berum orðum, að frv. væri í hættu, ef því væri aftur hleypt upp í Ed. Þetta kalla jeg að bera óhæfilegar getsakir á hv. Ed.; en ef hann vill ekki kannast við, að orð hans verði að skilja á þennan veg þá fer jeg að efast um að hv. þm. (E. Árna.) skilji mælt mál.

Það er með öllu ósæmilegt að gera hv. Ed. þær getsakir, að hún muni fella frv., þótt einhver breyting verði á því hjer: og því ólíklegra er, að hún muni ráðast í það þar sem hún kynokar sjer ekki við að koma með þær breytingar á frv., frá því sem það fór hjeðan er hún mátti ganga að sem vísu að mundu sæta megnum mótmælum hjer í deild. Þessi ótti við hv. Ed. á alls eigi að geta ráðið niðurlögum brtt.; það sæmir ekki þessari deild að vera svo hjartveik; og þótt því sje haldið fram, að það ríði á, að lögin komist sem fyrst í gildi, þá ríður þó ekki minna á hinu, að þau sjeu sæmilega og sanngjarnlega úr garði gerð. Það er og ekki til þess að hugsa, þrátt fyrir allan dugnað löggjafarvalds og stjórnar, að þau verði gengin í gildi áður en næsta skip kemur frá útlöndum því að það er von á því hingað í kvöld.

Það var undarlegt hvílíkur fítonsandi þaut í hv. þm. Stranda. (M. P.), þegar hann heyrði brtt. mína; hann ber eins og kunnugt er að eins hreinan spíritus fyrir brjóstinu og má ekki heyra nefndan annan án þess að hamast, rjett eins og annar spíritus sje eigi nauðsynlegur og nothæfur til ýmsra hluta.

Hv. þm. (M. P.) þótti það hjákátlegt, að jeg skyldi koma fram með brtt. mína skrifaða; slíkt er þó eigi svo í sjálfu sjer. Mjer þótti öðrum en mjer standa það nær að koma með brtt. og bjóst við, að þeir mundu gera það: en þegar það fórst fyrir greip jeg til þessa úrræðis.

Hv. þm. Dala. (B. J.) kvað það hefði verið sæmilegra fyrir mig að fá nefndina til að taka málið út af dagskrá en hafa þessa aðferð, en því er þar til að svara, að mjer var það fullkunnugt, að hún mundi neita þeirri málaleitan. Nú ætla jeg að reyna frjálslyndi hv. deildar, hvort hún muni ekki leyfa, að brtt. komist hjer að, og að óreyndu geri jeg ráð fyrir, að hv. þm. Dala. (B. J.) verði með því, þótt hann taki það ekki að jafnaði sárt, að þjarmað sje frv. annara en sjálfs hans. Mjer þykir líklegt, að hann minnist þess að um daginn var jeg með því, að frv. frá honum kæmi til umr., þótt því fylgi engin greinargerð, og launi það nú að jeg vildi láta náð ganga fyrir rjetti, því að jeg tel það rjett að fylgja ekki bókstaf þingskapanna út í ystu æsar, þegar um minni háttar atriði er að ræða og þannig mun háttv. þm. (B. J.) hafa litið á, er hann bar fram frv. sitt og vænti jeg þess, að ekki sje eitt fyrir honum í dag, en annað á morgun. Háttv. þm. (B. J.) sagði að kveikja mætti með steinolíu á prímusum: þetta er engin ný speki, því að flestum mun kunnugt, að kviknar í steinolíu við nægan hita; en hitt hjelt jeg að hv. þm. (B. J.) væri og kunnugt, að prímusar endast hálfu skemur, ef steinolía er notuð til að kveikja á þeim, og að þegar öllu er á botninn hvolft verður það miklu dýrara að nota steinolíu en brensluspíritus til uppkveikjunnar. Það kostar ekki lítið að þurfa sí og æ að láta gera við prímusa og hreinsa þá, og svo við og við að verða að kaupa þá nýja, og það miklu oftar en ella, ef lagður er steinn í götu manna með að nota þann suðuvökva, sem hentugur er. Jeg er í sjálfu sjer ekki á móti því að málið sje tekið út af dagskrá, og vænti jeg, að hv. þm. Stranda. (M. P.) verði því fylgjandi, ef til þess kemur.