12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í C-deild Alþingistíðinda. (3445)

148. mál, stofnun verslunarskóla Íslands

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) var að tala um ríkisskóla, og vildi gefa í skyn, að hann væri annars eðlis en hinir tveir verslunarskólar, sem ríkið styrkir nú. En hver er munur á ríkisskóla og skóla, styrktum af ríkinu, annar en sá, að yfir öðrum skólanum hefir ríkið full umráð, en hinum ekki; og má ætla, að minni trygging sje fyrir, að þeir skólar sjeu rækilega reknir eða stefni í þá átt, sem ríkið mundi helst kjósa, en skólar þess sjálfs.

Hv. þm. (P. J.) kom aftur með húsmæðraskólann í sambandi við þennan skóla. Jeg hafði áður sýnt honum fram á, að hjer er um óskyld mál að ræða. Ef enginn verslunarskóli hefði verið til, þá gat það komið til mála að bera það saman, hvorn skólaun ætti fyr að stofna. Þá mátti um það ræða, hvort meira riði á að sjá fyrir skólamentun húsmæðra eða verslunarmanna. En hjer er ekki slíku til að dreifa; hjer er einungis að ræða um, hvort slá eigi saman í einn skóla tveim skólum, sem fyrir eru. Hjer er líkt farið eins og ætti að fara að ræða um umbætur á kennaraskólanum eða einhverjum öðrum skóla, og svo kæmi einhver Pjetur eða Páll, og segði: „Sleppum að tala um þetta, við skulum heldur fara og stofna húsmæðraskóla. Jeg geri annars ráð fyrir, að jeg unni húsmæðraskóla eigi öllu minna en hv. þm. (P. J.), og ósk mín er sú, að húsmæður lærðu að hagnýta betur og skynsamlegar fæðutegundirnar og tilreiða þær en þorri þeirra kann nú. —

Hv. þm. (P. J.) ljet það í veðri vaka, að fjárráð þeirra, sem að verslunarskólunum standa, væru slík, að þeir gætu haldið þeim uppi af eigin ramleik, ef því væri að skifta. Það má vera, að svo sje um samvinnuskólann; það má hv. þm. (P. J.) best vita; en hæpið mun það vera um hinn skólann.

Hv. þm. (P. J.) var að tala um, að gott væri fyrir verslunarmenn að fara utan og fullnuma sig þar. Það er rjett, og slíkt hið sama má um fleiri segja, bæði húsmæður og aðra.

Þá talaði hv. þm. (P. J.) um frv. þetta eins og væri það óbreytanlegt. En fjarri er því. Ef hv þm. (P. J.) vildi t. d., að inntökuskilyrði væri ljettara, eða að skólanum væri skift í tvær deildir, aðra þyngri en hina auðveldari, þá gæti hann borið fram till. um það, og mundi hún verða tekin til athugunar. En nú hefir hann ekkert slíkt gert, og því þýðir ekki að tala um það.

Hans einu till. stefna að því, að tefja málið og eyða því.

Hv. þm. (P. J.) hefir ekki mótmælt því með rökum, að þessir tveir skólar mundu reynast dýrari en einn skóli, nje heldur því, að líklegt væri, að styrkurinn til þeirra mundi vaxa, enda má við því búast. Þá hjelt hv. þm. (P. J.) fram, að ýmislegt væri kent í samvinnuskólanum, sem ekki yrði kent í þessum skóla. Jeg veit ekki, hví hann segir svo, þar sem hann veit, að nefndin er fús að taka til greina öll þau atriði, sem að verslun lúta. Það eina, sem ástæða væri að taka tillit til í þessu sambandi, er námsskeið fyrir forstjóra í sveitum. En þessi námsskeið mætti hafa að enduðum skólatíma.

Jeg get yfirleitt ekki sjeð, að fram hafi komið nokkrar mótbárur, sem með rjettu gætu hindrað framgang málsins. Það hefir ekki verið sýnt fram á það, að nokkur sjerstök, ægileg fjárútlát væru þessu samfara. Það hefir ekki verið sýnt fram á, að þetta væri ekki betra en núverandi ástand, og gæfi fullkomnari kenslu en nú. Það hefir ekki verið hrakið, að í þessum skóla mætti kenna alt, sem kent yrði í hinum báðum. Þess vegna á skólinn að vera einn. — Ríkið á ekki að styðja tvær stefnur, hvora á móti annari, því þótt það sje viðurkent, að báðar stefnurnar geti verið rjettmætar, á ekki að innræta uppvaxandi mönnum úlfúð í garð annarar. Það er t. d. ekki rjett kensla í verslunarsögu, að draga fram verstu dæmin um selstöðuverslunina og taka það sem dæmi upp á verslunarstjettina alment. Það ekki heldur rjett að taka fyrstu kaupfjelögin sem dæmi upp á samvinnufjelagsskapinn nú.

Ef þessar tvær stefnur þurfa að berjast, eiga þær að gera það á heilbrigðum grundvelli samkepninnar.