20.08.1919
Neðri deild: 40. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í C-deild Alþingistíðinda. (3460)

58. mál, útibú Landsbanka Íslands á Vopnafirði

Þórarinn Jónsson:

Jeg hefi skrifað undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Jeg er þeirrar skoðunar, að slíkar till. sem þessa eigi ekki að fella, og vil því, að málinu verði vísað til hæstv. stjórnar. — Annars finst mjer, að svona till. ættu ekki að þurfa að koma fram fyrir þingið. Þetta ætti eingöngu að liggja undir stjórn Landsbankans og landsstjórnina. Bankinn ætti að vaka yfir því, hvar þörfin er á útibúum, og setja þau á stofn í samráði við landstjórnina. Það mun víða vera þörf fyrir útibú úti um land, þó ekki sje um stór kauptún að ræða. Það geta verið mörg og stór verkefni í ýmsum bygðarlögum, og bæði kraftur og geta til að koma þeim í framkvæmd, ef hægur aðgangur væri að peningastofnun, er hefði nægilegt fje, og engan veginn fer þessi þörf eingöngu eftir mannfjölda, og er því síst rjettmætt að fella till. á þeim grundvelli. Jeg vil sem sagt leggja til, að þessari till. verði vísað til stjórnarinnar, en ekki að hún verði feld, eins og er meining nefndarinnar.