08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í C-deild Alþingistíðinda. (3480)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Sigurður Stefánsson:

Jeg hefi gerst meðflutnm. að till. þessari, og vil því mæla með henni að mínum hlut. Skal jeg strax taka það fram, að það var ekki alveg nákvæmt hjá hv. þm. Dala. (B. J.), og stafar það af ókunnugleika, að það hafi komið einróma málaleitanir úr Norður-Ísafjarðarsýslu um þetta mál. Þær hafa að eins komið úr innri hluta sýslunnar, á þrem þingmálafundum þar. Jeg skal reyndar taka fram, að Norður-Ísfirðingum þeim, er hlut eiga að máli, kom mjög á óvart þessi breyting á ferðum vestanpóstsins. Vestanpóstur hefir um langan aldur farið um Dalasýslu og Barðastrandarsýslu til Arngerðareyrar. Með þessu er seinkað mjög öllum viðskiftum milli Ísafjarðarsýslu og Dala- og Barðastrandarsýslna. En þessi viðskifti hafa verið ærið mikil. Eru það ekki einungis viðskifti manna í milli, heldur og nær það til allra bankaviðskifta við Ísafjörð. Íbúar Dala- og Barðastrandarsýslna hafa mikil viðskifti við bankaútibúin á Ísafirði, og þessi breyting verður til þess að tefja mjög þau viðskifti. Annars býst jeg við, að hv. þm. Barð. (H. K.) láti í ljós undirtektir sinna kjósenda.

En það, sem aðallega snertir mitt kjördæmi, er 2. liður till., um svo kallaðan Hesteyrarpóst. Sú nýbreytni var tekin upp um síðastl. nýár, að pósturinn frá Ísafirði til Hesteyrar var látinn snúa við á Hesteyri strax, í stað þess að bíða þar eftir póstinum, sem þaðan fer til Aðalvíkur. En íbúar Sljettuhrepps við Aðalvík una þessari nýbreytni illa, því að þeir geta nú ekki svarað brjefum með sömu ferð, og verða því að bíða með að svara brjefum frá Ísafirði þar til í næstu póstferð. Er þeim þetta mjög bagalegt, og það því fremur, sem þessi hluti Norður-Ísafjarðarsýslu er ver farinn um samgöngur en flest hjeruð landsins. Það er því rjett, að póststjórnin líti á nauðsyn þessara afskektu manna, sem bæði eru olnbogabörn náttúrunnar, og hafa verið mjög afskiftir um þau hlunnindi og fríðindi, er löggjafarvaldið veitir landsmönnum í samgönguráðstöfunum sínum.

Jeg vil því leggja áherslu á, að póstgöngunum sje breytt aftur í sama horf og þær hafa verið síðustu 10 árin, svo að þessir afskektu menn geti svarað brjefum með sömu ferð og þeir fá þau.

Út af því, sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) mintist á, að rjett væri, að mál þetta væri athugað í nefnd, skal jeg geta þess, að jeg tel sjálfsagt, að þetta mál fari til samgöngumálanefndar, og það jafnvel þótt hv. þm. Stranda. (M. P.) hafi í höndum álit póststjórnarinnar á þessu. Það getur ekki skaðað, að samgöngumálanefnd athugi það, og mjer er allsendis óljóst, hvaða ástæður hafa knúð póststjórnina til að taka upp á þessu. Það mun að vísu vera dálítið meiri kostnaður að láta póstinn bíða einn sólarhring eða svo á Hesteyri eftir Aðalvíkurpóstinum. En það má ekki horfa í þann kostnað, enda getur hann ekki orðið nema örlítill.

Mjer er líka kunnugt, að þessi ráðabreytni, sem 1. liður beinist að, hefir mælst heldur illa fyrir í Ísafjarðarsýslu. Af því stafa ályktanir þingmálafunda í Norður-Ísafjarðarsýslu um, að beint póstsamband sje aftur tekið upp við Dala- og Barðastrandarsýslur um Þorskafjarðarheiði. Þess ber líka að gæta, að þessi hjeruð Dala- og Barðastrandarsýslna, sem hjer eru svift póstferðum, eru alveg símalaus. En nú á pósturinn eftirleiðis að fylgja símastauralínunni áleiðis til Arngerðareyrar. En Strandasýsla stendur mikið betur að vígi en Dala- og Barðastrandarsýslur, þar sem hún hefir þau miklu hlunnindi, að standa í símasambandi við alla hluta landsins.

Jeg sje ekki ástæðu til að ræða málið meira, en tek undir till. hv. þm. S-Þ. (P. J.), að málinu sje vísað til samgöngumálanefndar.