08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í C-deild Alþingistíðinda. (3481)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Magnús Pjetursson:

Mjer hefir heyrst það á báðum hv. flutnm. till., sem talað hafa, að þeir þykist ekki eiga von á góðu hjá mjer. (B. J.: Það var tilkynt). Jeg ætla nú ekki að fjölyrða mikið um þetta mál frá eigin brjósti. En mjer finst samt þessi till. nokkuð nýstárleg, eins og hv. þm. S.-Þ. (P. J.) reyndar tók fram. Hjer er komið með það inn í þingið, sem ekki hefir áður komið til þingsins kasta að ákveða um, það, að ákveða póstgöngur innan hjeraðs og semja áætlun um þær. Þingið hefir hingað til látið það eftir þeim málsaðilja, er þar á um að fjalla, sem sje póstmeistara og landsstjórn.

Það liggur annars í augum uppi, að það er ekkert þægilegt fyrir háttv. þingdm. að átta sig á þessu máli og þvílíkum, þegar verið er að tala um þennan og þennan hrepp, eða póstgötur, sem enginn þekkir. Þess vegna er það vitanlegt, að svo framarlega sem hv. þingdm. fara að einhverju leyti út á þessa braut, að láta þingið fjalla um mál, sem það hefir ekki fengist við áður, þá er það sjálfsagt, sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) tóku fram, að málið sje athugað í nefnd. Og ekki síst þar sem hv. flutnm. till. hafa ekki komið með neitt álit frá póstmeistara, sem þó er venja, og er það reyndar undarlegt, að fram hjá honum skuli hafa verið gengið.

Annars mætti ímynda sjer, eftir ræðum hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að einhverjir landshlutar hafi verið gersviftir póstferðum og hafi engar síðan. Jeg veit nú ekki, hvort þeim dettur í hug að halda því fram til streitu, en mjer vitanlega hefir enginn sýslupartur mist nokkurs í, nema hvað nokkrir hreppar geta ekki svarað brjefum með sama pósti sem þeir gátu áður. Annars ætla jeg að leyfa mjer að lesa upp álit pótsmeistara um þetta efni. Jeg hafði leyft mjer að senda honum till. og óska umsagnar hans. Sendi hann mjer síðan svo hljóðandi álit:

„PÓSTSTOFAN Í REYKJAVÍK.

Reykjavík, 6. ágúst 1919.

Vegna þess, að samgöngur á sjó eru orðnar svo tíðar til Vesturlands, er póstflutningur þangað með landpóstum nú orðinn venjulega mjög lítill, en eins og yður er kunnugt, þá hafa Norðurlands- og Vesturlandspóstur fylgst að frá Borgarnesi upp að Dalsmynni, þótt flutningurinn væri ekki meiri en svo, að einn maður gæti annast hann allan. Þaðan lá leið Vesturlandspóstsins um óbygðir, Bjarnadal og Bröttubrekku, en kom svo við á tveim póststöðvum í Dölum, Harrastöðum og Búðardal. Þar tók aftur við póstur, sem var samferða öðrum Dalasýslupósti í fyrstu, og fór svo um óbygðir, gegnum Svínadal, en kom svo við á einum póststað í Saurbæ, Stórholti, sem áðurnefndur annar Dalasýslupóstur gengur frá.

Síðan fór Vesturlandspóstur um horn af Barðastrandarsýslu og yfir Þorskafjarðarheiði.

Samhliða þessum pósti gengu svo tveir póstar frá Stað í Hrútafirði, Strandapósturinn og póstur milli Staðar og Króksfjarðarness, og urðu póstar þessir samferða út í Bitru.

Með því að póstferðin milli Ísafjarðar og Búðardals var orðin ákaflega dýr, og þurfti að hækka meira, og póstferðina frá Borgarnesi til Búðardals þurfti einnig að borga miklu meira en áður, kom mjer til hugar að sameina þessar póstferðir, og spara með því líklega þúsundir króna fyrir póstsjóð, án þess að baka neinum veruleg óþægindi.

Flutningurinn með þessum þrem póstum var í flestum ferðum eigi meiri en það, að einum manni var eigi ofvaxið að annast hann allan, og Norðurlandspóstur gat tekið flutning Vestanpósts norður að Stað, án þess að bæta við sig fylgdarmanni, og oft án þess að bæta við sig áburðarhesti.

Pósturinn, sem gengur milli Stykkishólms og Staðar, gat svo tekið póstflutning frá póststöðunum í Dalasýslu, Harrastöðum og Búðardal, eða rjettara sagt frá öllum póststöðum í Dalasýslu norður að Stað, í veg fyrir pósta til Suður-, Norður- og Vesturlands, og tekið flutning þaðan aftur úr öllum hlutum landsins til allra póststaða í Dalasýslu, sem bæði hann sjálfur, og aukapósturinn úr Saurbænum, sem fer um Fellsströnd og Skarðsströnd, getur tekið á bakaleið sinni.

Til þess aftur að flytja póst úr Barðastrandarsýslu, og sjerstaklega til að sækja póstflutninginn frá aðalpósti, þurfti Bíldudalspóstur að bæta við sig 25 kílómetra ferð, frá Gröf í Bitru að Króksfjarðarnesi.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta meira, en sendi yður, hr. alþingismaður, eftirrit af brjefum mínum til stjórnarráðsins, dags. 11. f. m., út af undirskriftasmölun í Dalasýslu þessu máli viðvíkjandi og ummælum sýslunefndar í Barðastrandarsýslu.“

Svo getur póstmeistari þess, að í síðustu póstferð hafi engin sending verið send hjeðan í Dalasýslu, og með póstferðinni til baka hafi engin sending komið úr Dalasýslu, af því að sjóferðir fjellu um það leyti milli Búðardals og Reykjavíkur, og Vesturlandspóstur hafi því ekki átt neitt annað erindi vestur í Dali en að eyða peningum.

Þá getur póstmeistari ummæla póstafgreiðslumannsins á Ísafirði viðvíkjandi síðari lið till., um Hesteyrarpóstinn. Skal jeg skýra frá því síðar.

Svo segir póstmeistari síðast:

„Álit mitt á hjálagðri þingsályktunartill. er, að Alþingi ætti að vísa henni frá, ef það vill eigi fara að eyða í dutlunga nokkurra manna þúsundum kr., sem er pláss fyrir annarsstaðar, þar sem sannarleg þörf er fyrir, auk annara eftirkasta, sem samþykt till. hefði í för með sjer.

Jeg sje þá eigi, að framar verði hægt að breyta nokkru til með póstferðir eða póststaði, því aldrei er hægt að hreyfa við þeim svo, að eigi þykist einhver líða baga við það.

Þá hefði aldrei verið hægt að láta aðalpósta ganga frá Borgarnesi, í staðinn fyrir frá Reykjavík, þá hefði eigi verið hægt að láta Suðurlandspóstinn ganga um Skaftártungu, í staðinn fyrir yfir hið hættulega Kúðafljót og Meðalland, og þá væri heldur aldrei hægt að skifta um póststað, hvað afskektur sem hann kynni að liggja, vegna nýrra vega, og hvað mikið sem hlutaðeigandi póstmaður heimtaði í kaup.

Þar sem jeg hefi talað um þúsunda króna sparnað, skal jeg bæta því við, að nú hefir Norðurlandspóstur um 2000 kr. á ári fyrir ferðina norður að Stað, fyrir utan klyfjahesta. Sama má reikna að hefði orðið að borga póstinum frá Borgarnesi til Búðardals, en þessi liður fellur alveg niður við breytinguna; sömuleiðis falla niður póstferðirnar milli Króksfjarðarness og Staðar, sem sjálfsagt má telja 1500 kr.

Þar sem leið Strandapósts styttist um rúma 100 kílómetra, og flutningurinn minkaði að sama skapi, þá gerði jeg ráð fyrir, að það, sem sparaðist á þeirri leið, myndi nægja til að bæta við aukapóstana í Dala- og Barðastrandarsýslum vegna breytingarinnar.

Póstferðirnar milli Arngerðareyrar og Staðar eru töluvert ódýrari en það, sem jeg varð að borga fyrir ferðirnar milli Arngerðareyrar og Búðardals f. á.“

Svo segir póstmeistari viðvíkjandi Hesteyrarpóstinum.

„Jeg gæti ekki sagt með vissu, hvað yrði að borga fyrir bið Hesteyrarpósts, en eftir kröfum, sem farið er að gera, skyldi mig eigi undra, þótt það yrði fram undir 1000 kr.“

En annars ætla jeg ekki að snúa mjer sjerstaklega að þessu atriði, um Hesteyrarpóstinn, því að jeg er því ekki eins kunnugur. En jeg hygg, að það hefði verið rjettara af hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) að tala við póstmeistara, og get jeg vel hugsað mjer, að þeir hefðu getað komið sjer saman um fyrirkomulagið.

Annars þótti mjer dálítið kynlegt að heyra hv. þm. Dala. (B. J.) halda því fram, að ræða væri um einróma álit þriggja sýslna, jafnvel þótt hann tæki það jafnharðan aftur, nema hvað Dalasýslu snerti. Mjer þykir það kynlegt samt, að það sje einróma álit Dalamanna, þar sem kunnugt er, að mestur hluti Dalasýslu hefir nákvæmlega Sömu póstgöngur og áður.

Hv. þm. Dala. (B. J.) var að spyrja, hvað valdið hefði þessari ráðstöfun. það liggur ljóst fyrir, að það var ekki annað en sparnaðarástæður. Með því er engu tapað, því eins og sýnir sig af brjefi póstmeistara, fóru póstarnir þar hver um annan samsíða. Annars er það alveg rjett hjá hv. þm. Dala. (B. J.), að Strandamönnum má standa alveg á sama um þetta. Þeir græða ekkert á þessu; hafa nákvæmlega sömu póstgöngur og áður, því að jeg tel ekki, þótt einn hreppur í Strandasýslu kunni að fá þau hlunnindi, að geta nú svarað með sama pósti aftur brjefum frá Ísafirði.

Það er, eins og brjef póstmeistara bendir á, lítill flutningur, sem pósturinn hefir haft. Þannig var t. d. síðasti flutningurinn eitt koffort í Búðardal og hálft að Króksfjarðarnesi. Og til þessa átti að hafa sjerstakan póst, í því einu skyni, að nokkrir hreppar í Dalasýslu fengju póstinn tveim dögum fyr en ella!

Annars hefði jeg vel getað hugsað mjer einhverja málamiðlun, ef háttv. þm. Dala. (B. J.) hefði farið fyrst til póstmeistara og leitað hans, í stað þess að koma með þessa till. inn í þingið án hans vitundar. En annars get jeg ekki verið að fjölyrða um þetta, því hversu lengi, sem jeg talaði, yrði varla mögulegt, að aðrir hv. þm. en þeir fáu, sem kunnugir eru staðháttum, gætu dæmt um málið. Svo er hjer um það mál að ræða, sem þingið á alls ekki að vera að blanda sjer inn í, og sjerstaklega þegar flm. hafa ekki leitað álits póstmeistara. Þess vegna hefi jeg líka leyft mjer að koma fram með svo hljóðandi rökstuddu dagskrá:

„Að undanförnu hefir það verið eitt af störfum póstmeistara og landstjórnarinnar, að ákveða póstgöngur hjer á landi, og í því trausti, að þau framvegis, eins og að undanförnu, hagi þeim sem haganlegast fyrir landsmenn og ríkissjóð, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“