08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í C-deild Alþingistíðinda. (3486)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Flm. (Bjarni Jónsson):

Háttv. þm. Stranda. (M. P.)talaði um forlild, sem hann áleit að væri móðir þessarar till. Hann hjelt þá sýslubúa, sem hjer um ræðir, svo hjegómagjarna, að þeir vildu alt til vinna, til að halda í gamlar póstleiðir. Þessari ásökun verð jeg að vísa til föðurhúsa, enda var ekki laust við, að fordildar kendi í ákafa og vörn hv. þm. Stranda. (M. P.). Þessi sami hv. þm. (M. P.) hefir borið hjer fram skrif, sem hann kallar rökstudda dagskrá. Öllu má nafn gefa. Fyrri liður þessarar dagskrár er um, að það sje venja, að landsstjórn og póstmeistari ráði póstleiðum. Af þessu dregur hv. þm. (M. P.) þá ályktun, að málið skuli tekið af dagskrá. En það er ekki rjett niðurstaða; hún leiðir ekki af því, sem á undan er sagt. Það hefir enginn farið fram á annað en að landsstjórnin og póstmeistari rjeðu. Þingsál.till. er að eins tilmæli til þeirra um að ráða þeim á ákveðinn hátt. Jeg skil ekki, að nokkur geti fundið till. það til foráttu, að hún sje of djarft orðuð. Það má ekki minna vera en að þinginu leyfist í kurteisi að ávarpa þá háu herra. Leyfist kettinum að líta á kónginn.