01.09.1919
Neðri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í C-deild Alþingistíðinda. (3492)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Benedikt Sveinsson:

Af því, að jeg hefi skrifað undir mál þetta með fyrirvara, mun þykja hlýða, að jeg geri grein fyrir atkv. mínu. Það er satt, að mál þetta var ekki kappsmál í nefndinni, því flestir nefndarmenn voru málavöxtum fremur ókunnugir. Undirnefnd var skipuð í málinu, og er það niðurstaða hennar, sem fram kemur í nál.

Jeg skil ekki, að það sje rjett að fara að breyta póstgöngunum nú, þannig, að einhverjir fari varhluta af. Það munu að vísu sparast 2000–3000 kr. við breytinguna, en hins vegar hlýtur það að baka Dalamönnum nokkur óþægindi, að póstur þeirra sje fluttur norður yfir Holtavörðuheiði, áður en þeir fá hann. En nú heyrðist mjer í ræðu hv. frsm. (E. Árna.), að póstmeistara væri ekki ant um að halda málinu til streitu, heldur myndi hann fáanlegur til að gera bragarbót, þannig, að Dalamenn fái þær umbætur, er þær gætu við unað. Jeg vildi ekki, að spilt væri póstsamgöngum í vissum landshluta fyrir lítilfjörlegan sparnað, og þó síst í þeim hluta lands, þar sem minst er um strandskipaferðir, svo sem er í Dalasýslu og nyrst í Norður-Ísafjarðarsýslu, og því var jeg ósamþykkur niðurstöðu nefndarinnar.