01.09.1919
Neðri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í C-deild Alþingistíðinda. (3493)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Bjarni Jónsson:

Það er dálítið undarlegt við þetta mál, þar sem svo er að sjá, sem hv. nefnd hafi að eins snúið sjer til póstmeistarans og fengið hjá honum alla sína visku. Það hefir verið lesið hjer upp brjef frá póstmeistara, og stóð í því alt hið sama sem í nál. Það er undarleg sú aðferð háttv. nefndar, að hún leitar fyrst og fremst hjá öðrum málsaðilja, þeim, sem fundið er að gerðum hans, en gengur á bug við hinn, sem aðfinslurnar ber fram. Hv. nefnd hefir hvorki talað við mig nje hv. þm. Barð. (H. K.), nje heldur hv. þm. N.-Ísf. (S. St.); hún hefir algerlega gengið fram hjá okkur öllum kærendunum, en einungis leitað upplýsinga hjá hinum kærða, og á framburði hans byggir hún svo ályktanir sínar. Þeim fer líkt, þessum ágætu nefndarmönnum, eins og dómaranum, sem kært var fyrir, að maður hefði stolið byssu. Dómarinn kallaði manninn á sinn fund og spurði: „Hefirðu stolið byssu, maður?“ „Nei, nei,“ svaraði maðurinn. „Þá ert þú góður,“ sagði dómarinn og ljet rannsókninni þar með lokið.

Þar sem nú póstmeistari segir, að sparast muni um 3000 kr. við breytinguna, þá skal jeg ekki vefengja það. En nokkuð er þó athugavert við þetta. Hingað til hefir það verið kent, að tvær hliðar á þríhyrningi væru lengri saman lagðar en hin þriðja, en nú er ráðist á þá kenningu, þar sem gert er ráð fyrir því, að það sje sparnaður að flytja Dalasýslupóstinn frá Dalsmynni að Stað í Hrútafirði og þaðan í Búðardal, í stað þess að flytja hann eftir beinni línu frá Dalsmynni í Búðardal. Sje þessi nýja uppgötvun í „geometriunni“ rjett og óskeikul, þá má það vel vera, að póststjórnin hafi gert sparnaðarráðstöfun með því, að láta póstflutninginn til Dalasýslu fara krókaleið þá, sem jeg nefndi, en sje hún röng, þá fer sparnaðurinn að verða meira en tvísýnn.

En á fleira er að líta en kostnaðinn. Líta má og á, hversu ljett eða erfitt póstum verður að koma sjer og hestum sínum fyrir til gistingar. Dæmi eru til þess, að norðanpóstur, Jón í Galtarholti, hafi haft 22 hesta, en vestanpóstur í sömu póstferð 15 hesta. Nú hefði, samkvæmt þessari nýju ráðstöfun, Jón í Galtarholti tekið þessa 15 hesta með, og hefði hann þá í alt haft 37 hesta. En nú af því hann veðurteptist í Sveinatungu með 22 hestana, átust upp öll hey bóndans. Ver hefði farið, ef hestarnir hefðu verið 37; þá hefðu líklega einhverjir af þeim orðið að svelta. — Jeg get vel trúað, að fult eins heppilegt sje að láta ferðirnar vera eins og þær voru. En svo legg jeg ekki áherslu á þennan sparnað, og þótt meiri væri. Skemd á samgöngum er ekki sparnaður. Jeg veit ekki betur en 100 þúsund krónum hafi verið kastað í fjelag eitt, til þess að það sendi skip sín inn á hverja smáhöfn eftir einum saltfiskspoka, eða sem því svaraði, auk þess sem farið hefir til flóabátanna. Teldi jeg ekki einum þúsund krónum ver varið til bóta á samgöngutækjum í Dalasýslu og Barðastrandarsýslu.

Í brjefi því frá póstmeistara, sem getið er um í nál., segir svo:

„Dalasýsla hefir, eins og póstferðum er nú komið fyrir, með hverri landpóstferð póstsamband við alla hluta landsins, álíka og aðrar sýslur, sem liggja í líkri fjarlægð frá Reykjavík.“.

Þetta er nú ekki ákaflega ákveðið. — Við skulum þá segja, að Dalasýsla hafi áður haft betra póstsamband en aðrar sýslur; ef þessi breyting hefði verið gerð til þess að jafna áhallann og bæta fyrir öðrum, þá væri hún skiljanleg. En að skemma fyrir einni sýslu bara til að skemma, án þess að bæta annari, þá er það skrítið rjettlæti. Rjettlæti í þessu efni er ekki annað en að bæta úr því, sem skakt er gert. Jeg veit ekki, af hvers toga þetta er spunnið, en það mun sýna sig síðar, að það er svo langt frá, að hún sje til bóta, að hún mun verða til skemda, og póststjórninni mun hún ekki reynast neitt gróðafyrirtæki.

Skal jeg svo ljúka þessu máli og leggja það á vald hv. deildar, hve rjettlát og glögg hún er í málinu. Dalamönnum er þetta talsvert áhugamál, en þó mun deildin taka sjer það ljett, þótt þeim mislíki; hún heldur, að við það geti hún grætt 3 þús. kr. á ári. En það er víst, að sá gróði kemur aldrei í landssjóð.

En þar sem hv. frsm. (E. Árna.) gat þess, að póstmeistari hefði lofað aukapóstferð frá Dalsmynni um Búðardal og Stórholt til Kleifa, þá mun Dalamönnum þykja það bót nokkur, en fyrir því er ekki borgið innri hluta Barðastrandarsýslu.

Fáist deildin ekki til að samþykkja till. okkar þm. þessara hjeraða, vil jeg herma það sem loforð hv. frsm. (E. Árna.), fyrir hönd póstmeistara, að þessi endurbót fáist. (E. Árna.: Ef þeir óska þess). Vitanlega mun enginn þröngva þeim til þess. En hvert eiga þeir að snúa sjer? (E. Árna.: Til póstmeistara). Gott er það að vita. En sem sagt eru þar með eigi leyst vandræði Barðastrandarsýslu. En jeg býst við, að hv. þm. Barð. (H. K.) taki til máls og skýri sína afstöðu og kjördæmis síns til þessa máls.