01.09.1919
Neðri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í C-deild Alþingistíðinda. (3497)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Einar Jónsson:

Það er ekki í fyrsta sinn, sem hv. þm. Dala. (B. J.) misskilur mig. Það var alveg hárrjett skýring, sem hv. þm. Stranda. (M. P.) gaf á orðum mínum, að jeg set mig beint á móti þessari till. En hitt vil jeg segja, að þótt hv. þm. Dala. (B. J.) þykist standa hjer á verði fyrir sina kjósendur, þá mun það að líkindum ekki standa lengi. Hann mun innan stundar hverfa hjeðan af þingi, að jeg vona. Jeg hafði lýst því yfir, að jeg væri á móti þessari till., og ætla jeg að gera það enn. En jeg vil nú lýsa yfir því í þinglok að þessu sinni, og má ske undir lok minnar þingæfi, að hv. þm. Dala. (B. J.) hefir aldrei spilað stærra númer í mínum augum en aðrir þingmenn. Þessi yfirlýsing vildi jeg að sæist svart á hvítu í þingtíðindunum. (B. J.: En ef nú verður hætt að prenta þingtíðindin?). Það væri verst fyrir hv. þm. Dala. (B. J.), ef hætt yrði að prenta þingtíðindin, því að hann hefir æfinlega talað fyrir þau og kjósendur, en ekki fyrir málin. Hann hefir æfinlega talað fyrir utan málefnin.