08.07.1919
Neðri deild: 5. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í C-deild Alþingistíðinda. (3506)

36. mál, útflutningsgjald af síld

3506Fjármálaráðherra (S. E.):

Í þessu frv. er farið fram á, að skattur á síldartunnum hækki um kr. 2,50 pr. tunnu. Það er ekki auðhlaupið að því að áætla, hversu mikill tekjuauki yrði að þessu frv., því það færi alt eftir, hversu mikið yrði flutt út af síld, en það virðist ekki óvarlegt að gera ráð fyrir, að út yrðu fluttar á fjárhagstímabilinu hjer um bil 150000 tunnur, og yrði þá tekjuaukinn frá því, sem nú er, 375,000 kr. á ári.

Það verður sjálfsagt deilt um það, hvort rjett er að hækka svo mjög skattinn á þessum tekjustofni, en tvær ástæður eru þó, sem virðast mæla fast með þessari hækkun.

Fyrri ástæðan er sú, að þessi atvinnuvegur hefir verið mjög svo arðvænlegur og stórgróði orðið á honum; síðari sú, að helmingurinn af þessum tolli fellur rjettilega á útlendinga, sem sópa saman stórgróða við strendur landsins.

Jeg endurtek, að það væri heppilegast að hraða þessu máli sem mest, svo lögin geti sem fyrst öðlast gildi.

Jeg leyfi mjer að gera það að till. minni, að frv. verði vísað til fjárhagsnefndar, að lokinni umr.