18.07.1919
Neðri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í C-deild Alþingistíðinda. (3511)

36. mál, útflutningsgjald af síld

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Fjárhagsnefndin hefir leyft sjer á ný að koma fram með 2 ofurlitlar brtt. við þetta frv., sem nú liggur fyrir um útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Fyrri brtt. er í því fólgin, að færa aftur þann tíma til 1. apríl, sem ætlast er til að lögin gangi í gildi. Nefndin gerði hana út af ummælum hv. þm. S-Þ. (P. J.), og jeg get bætt við, beinlínis af þægð við hann. Hins vegar leggur nefndin enga áherslu á þessa brtt. og lítur svo á, að þótt lögin gangi í gildi 1. jan., muni það ekki saka neitt, því að þá muni verða búið að flytja út alla þá síld, sem veiðist í sumar.

Síðari brtt. lýtur að því, að gefnu tilefni, að breyta fyrirsögn frv., og miðar að því að stytta hana; það þótti nefndinni og þykir yfirleitt betur fara, að fyrirsagnir laga sjeu sem stystar og glegstar, og að því miðar brtt.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að segja fleira, Nefndin leggur ekki neina áherslu á brtt., og er ekkert kappsmál um þær.