08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Einar Jónsson:

Jeg vil leyfa mjer, að lýsa því yfir, að mjer finst það varhugavert gagnvart hrossaeigendum að leyfa stjórninni einkasölu á hrossum eins og nú standa sakir.

Að vísu er enginn vafi á því, að í fyrra höfðu hrossaeigendur gott af afskiftum stjórnarinnar af málinu. En þess ber þá líka að gæta, að þá var valið úr hrossunum og að eins þau stærstu og fallegustu seld, en það verður ekki hægt í framtíðinni, og má því búast við, að hrossaverðið lækki nokkuð, þar eð hrossin verða bæði misjafnari og verri.

Jeg hefi heyrt því haldið fram, að hrossasalan í vor hefði getað gengið vel, en svo hafi alt farið út um þúfur við það, að stjórnin tók málið í sínar hendur. Jeg hefi sem sje heyrt því haldið fram, og legg jeg talsverðan trúnað á þann orðróm, að þegar stjórnin fór að spyrjast fyrir um hrossaverð erlendis og bjóða þau, þá hafi erlendu hrossakaupmennirnir tekið sig saman um að halda verðinu sem mest niðri, og hafi jafnvel ákveðið, hvað bjóða skyldi. Í stað þess átti stjórnin að ákveða sjálf verðið og kunngera það svo utanlands. Má mikið vera, ef þá hefði ekki betur til tekist.

Ekki fæ jeg heldur sjeð, að vöntun á skipakosti sje nein ástæða fyrir einokun stjórnarinnar á hrossunum, því skipakosturinn eykst ekkert við það, þó stjórnin standi fyrir útflutningnum. Hrossin þurfa jafnmikið rúm í skipunum, hvort heldur sem þau eru á vegum stjórnarinnar eða einstakra manna.

Jeg býst við að málinu verði vísað til nefndar og þarf jeg fyrir mitt leyti að fá frekari upplýsingar en jeg hefi fengið, til þess að jeg geti verið fylgjandi þessu frv.