04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (3543)

7. mál, landamerki o. fl.

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. til laga um landamerki o. fl. er fram komið vegna þess, að á þinginu 1917 var samþykt till. til þingsályktunar um að skora á stjórnina að undirbúa málið fyrir næsta reglulegt þing. Þetta mál hefir fengið góðan undirbúning, og nefndin leggur til, að frv. nái fram að ganga með tveim lítilfjörlegum breytingum.

Á þinginu 1917 vildu sumir þingmanna láta rífa upp alla landamerkjagerðina, hvort sem um ágreining um landamerki væri að ræða eða ekki. En sumir vildu að eins taka um það, sem ágreiningur hefir verið um, en láta hitt eiga sig, og er þeirri stefnu fylgt hjer.

En auk þess er sú breyting gerð á rjettarfari í þessum málum, að þegar valdsmaður verður þess var, að ágreiningur sje einhversstaðar um landamerki eða ítak í landi, er gert ráð fyrir, að hann stefni hlutaðeigendum þá á dómþing. Er þetta gert til þess að fyrirbyggja það, að þessi ágreiningur lifi svo og svo lengi án þess að hann jafnist. Svipar því til meðferðarinnar á opinberum málum og sýnir, að það er álitið mikilsvert að fá skorið úr slíkum málum með dómi í eitt skifti fyrir öll, ef ekki fæst sætt.

Auk þess er tekinn í frumvarpið nýr flokkur mála, áreiðar- og vettvangsmál, sem að ýmsu leyti eru skyld landamerkjamálum, en þó ekki þannig, að með þau verði farið alveg eins. En það er mjög eðlilegt að hafa þau með í landamerkjalögunum vegna skyldleikans.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að fara mikið út í málið, enda eru flestir háttv. þm. farnir út. En þó vil jeg minnast á brtt. örfáum orðum.

Eftir 1. brtt., við 1. gr., er nánar tekið til orða, til þess að það sjáist skýrt, hve langt menn eru skyldir að fara um gerð landamerkja. Það var ekki alveg ljóst eftir frv., en auðvitað, að skyldan nær ekki lengra en til að gera merki glögg. Það þarf ekki garð, girðingu eða skurð, nema aðrar ástæður komi til, ef t. d. engi liggja saman eða engi og bithagi, og um girðingar er að ræða. sbr. girðingalögin. Fer þá um tillag hvers eftir þeim, en ekki er það afleiðing landamerkjalaganna.

Enn fremur er brtt. við 9. gr., sem gengur út á það, að valdsmaður skuli strax, ef ekki verður sætt, útnefna menn í dóm. Er það dálítil breyting á frv., sem ef til vill mætti skilja svo, að þess þurfi ekki strax.

Breytingin er sú að á eftir „valdsmaður“ í 1. málsgrein bætist inn í: þá þegar. En eftir nánari athugun á greininni sýnist það betur fara að bæta einungis inn í orðinu „þegar“. Vil jeg því leyfa mjer að óska þess, og tel víst að hv. deild sje því samþykk, að það megi skoðast sem „redaktions“-breyting á brtt. að fella „þá“ í burtu, svo að þar standi að eins „þegar“, og því orði skuli bætt inn í frv. greinina.