21.08.1919
Efri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (3552)

7. mál, landamerki o. fl.

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg held að þetta sje nokkur misskilningur hjá hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.), og sumt af því er hann sagði, staðfesti einmitt það að brtt. væri rjettmæt.

Eins og greinin er nú orðuð lítur svo út, sem valdsmaður eigi að hlaupa upp til handa og fóta eftir hverju skrafi, sem hann heyrir um landamerkjaágreining: en það er vitanlega ekki ætlunin og því hefir nefndin sett orðið „ábyggilegur“ inn í setninguna og jeg skil ekki að neinn, hvorki hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) nje aðrir, hafi á móti því.

Hitt atriðið, að valdsmaður telji málið skifta einhverju, getur alt eins verið vörn fyrir menn gegn deilugjörnum valdsmönnum, og ef greinin væri samþykt óbreytt, þá er ekki óhugsandi að einhver valdsmaður sæi sjer akk í að ferðast um sýslu sína til þess að jafna þrætur, er lítið eða ekkert væri í spunnið. Gæti það verið talsverður skattur á eigendur jarðanna, því ferðakostnaðurinn yrði þó nokkur.

Ákvæði þessi eru tekin eftir lögum um mælingar í Reykjavík frá 1914, þar sem sjerfræðingur mælir þrætustykkin, og því augljóst, að valdsmaður getur haft ábyggilega vitneskju um, hvort þrætan skiftir nokkru máli. Þar stendur því alt öðruvísi á. Og mjer finst það ekki rjett að neyða valdsmann til að taka upp mál, reka það og dæma, er hann telur hjegómann einberan.

Rök hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) leiða annars út í hreinar öfgar, þær, að valdsmönnum sje ekki trúandi fyrir málum þessum.