08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi hlýtt á þessar umr. í von um, að einhverjar markverðar upplýsingar kæmu frá hv. stjórn eða útflutningsnefnd, en þær hafa engar komið fram, hvorki í umr. eða greinargerð frumvarpsins.

Það gat verið hugsanlegt, að stjórnin hefði sjeð sig tilneydda til þessa úrræðis, sökum ófriðarástandsins. Og er skeytið kom til lögreglustjóra landsins um það, að bannaður væri útflutningur á öllum íslenskum afurðum, og þó um leið, að leyfður væri útflutningur á öllum íslenskum vörum nema hrossum og 2 öðrum, þá hjelt jeg, að þetta hefði verið gert eftir kröfu bandamanna, þótt það á hinn bóginn væri allótrúlegt, þar eð vopahlje hafði verið samið og ófriðurinn um leið á enda. Það er þá líka komið upp úr kafinu, að þessar voru ekki ástæðurnar.

Þannig liggur sem sje í öllu, að landbúnaðarráðuneytið danska fór fram á það við íslensku stjórnina, að hún tæki í sínar hendur einkasölu á hrossum. Var þetta auðvitað gert að ráði danskra manna, er hrossanna þurftu. Óttuðust þessir menn, að hrossamarkaðurinn yrði þeim hár, og því eru samtök höfð til þess að koma verðinu niður. Húsmannafjelagið danska tekur málið í sínar hendur, snýr sjer, eins og áður er sagt, til landbúnaðarráðuneytisins danska, og segir, að þetta verð, og ekki meira, vilji þeir gefa fyrir hrossin. Að þessu verði gengur síðan íslenska stjórnin, þó í gegnum aðrar hendur sje, enda þótt það væri mjög svo lágt. Þetta er því einkennilegra, sem ófriðurinn mátti heita á enda kljáður, eins og jeg hefi tekið fram, og skyldi maður því ætla, að hægt hefði verið að kaupa og selja nokkurn veginn hindrunarlaust og frjálst. Það hefði verið sök sjer, ef stjórnin hefði látið málið sig skifta í þeim einum tilgangi, að tryggja mönnum skipakost og flutning hrossanna, en öll önnur afskifti tel jeg með öllu óleyfileg, eins og sakir í raun og veru stóðu. Það er fullkunnugt, að nú er svo komið, að full þörf er að losna við hrossin við sæmilegu verði, en þessar tiltektir hafa orðið til þess eins, að halda niðri því verði, sem landsmenn hefðu ella getað fengið fyrir hrossin og þurftu með.

Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) ljet sjer þau orð um munn fara, að allir þeir hrossaeigendur, er til greina komu, hefðu felt sig vel við þessa ráðstöfun stjórnarinnar. En þetta er mjer með öllu óskiljanlegt, því að hjer í hv. deild eru fulltrúar úr flestum hjeruðum landsins, og þeir munu, hver um sig, vera reiðubúnir að votta hið gagnstæða. Þessi staðhæfing hæstv. ráðherra er á jafnmiklum rökum bygð og staðhæfingar sumra blaða, er halda, að öllum landsmönnum geðjist það eitt, er nokkrir menn hjer í Reykjavík álíta satt og rjett.

Það er því með öllu óleyfilegt, að stjórnin skuli með þessum tiltektum sínum hafa bundið landsmenn á klafa í þessu máli, og hefðu því þessi bráðabirgðalög átt að koma í þingið til þess eins, að þau yrðu svæfð. En nú er líklega svo í garðinn búið, að eigi er það tiltækilegt.