08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Pjetur Jónsson:

Jeg er hræddur um, að hv. þm. Dala. (B. J.) hafi ekki tekið nógu rækilega eftir ræðu minni. Þar ljet jeg þess getið, að ekki hefði verið hægt að selja húsmannafjelaginu danska hrossin, vegna þess, að þau hefðu ekki fengist til þess að bjóða nógu hátt verð. Sömuleiðis vildu gamlir kaupendur engu sinna tilboðum vorum, svo þeir, sem keypt hafa eru algerlega nýir kaupendur, og buðu þeir þá kosti sem að var gengið. Enn fremur vil jeg taka það fram aftur, að hrossin eru þegar seld, en það virðist hafa farið algerlega fram hjá hv. þm. Dala. Hann segir og söluna hafa farið fram eftir tilboði, sem einn einstakur „strámaður“ rjeði, en þetta er með öllu rangt, því stjórnin gerði sitt ítrasta til að fá sem flest og hæst tilboð.

Þá vil jeg lýsa því yfir, að útflutningsnefndin ber enga ábyrgð á einkasölunni; það er stjórnin, sem ákveður, að einkasala skuli vera, en útflutningsnefndin gerir ekkert annað en að framkvæma boð stjórnarinnar einkasölunni viðvíkjandi.