16.07.1919
Neðri deild: 8. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í C-deild Alþingistíðinda. (3599)

57. mál, ritsíma- og talsímakerfi (Silfrastaðasími)

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg flyt frv. þetta eftir einróma beiðni þingmálafunda í Skagafirði og sömuleiðis eftir ósk sýslunefndar. Á aðalfundi sínum þetta ár samþykti nefndin að beitast fyrir þessu máli. Ástæðurnar fyrir frv. eru þær, að svo má heita, að mestalt Skagafjarðarhjerað sje símalaust, eða fjórir stórir hreppar, sem eru Staðarhreppur, Seyluhreppur, Lýtingsstaðahreppur og Akrahreppur. Ef þeir, sem búa inni í Skagafirðinum, þurfa að nota síma, verða þeir að fara út á Sauðárkrók, en því una íbúarnir, sem von er, illa, enda leiðir af sjálfu sjer, að svo stórt og ágætt hjerað, sem framhluti Skagafjarðar er, getur ekki verið símalaust.

Álits landssímastjóra hefir verið leitað um þetta mál, og eins og sjest af brjefi því, sem prentað er með greinargerð frv., þá er hann því mjög hlyntur. Hans álit er það, að aðallínan um Skagafjörð eigi að liggja fram fjörðinn að vestan um Víðimýri og Silfrastaði og yfir Öxnadalsheiði, sökum þess, að símalinan, eins og hún nú er, sje alt of kostnaðarsöm, þar eð símslit sjeu þar mjög tíð. Það virðist því ekki vera nema rjettmætt, að landssjóður kostaði þessa línu að öllu leyti, en þó býst jeg við, að tillag mundi fást úr hjeraðinu, því sýslubúum er þetta mikið áhugamál. Ríkissjóði ætti því að vera gróði að því, að taka vel í þetta frv.

Jeg legg það til, að málinu verði vísað til samgöngumálanefndar að lokinni þessari umr.