16.07.1919
Neðri deild: 8. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í C-deild Alþingistíðinda. (3602)

165. mál, ritsíma- og talsímakerfi Vallanessíma

Flm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. er fram komið af því, að á Upphjeraði er vaknaður almennur áhugi fyrir því að fá þangað síma, og hefir sá áhugi aukist við það, að verið er nú að leggja síma um Úthjerað til Borgarfjarðar. Það er líkt um Upphjeraðið og Skagafjörðinn, að nokkrir hreppar eru utan símasambands, og hafa því ekki veruleg not af símanum, nema þá að íbúarnir ferðist út í Egilsstaði eða Fossvelli, en það er löng leið úr sumum hreppunum. Þessir hreppar eru: Skriðdalshreppur, Fellahreppur, Fljótsdalshreppur og Jökuldalshreppur. Að vísu mundi Jökuldalshreppur ekki hafa full not af síma þessum, en þó yrði að honum talsverður hægðarauki fyrir efri hlutann. Jeg skal geta þess, að ráðgert hefir verið að leggja sæsíma yfir Lagarfljót milli Vallaness og Áss, því með því móti yrði síminn að almennustum notum. En ef síminn aftur á móti yrði allur lagður austan fljóts, fyrir botninn, og að Brekku, er sennilegt, að norðanbyggjar mundu verða óánægðir, enda væri þetta óhagstæðara og gæfi minni tekjur. Að síminn sje fyrst lagður upp að Vallanesi, en ekki upp frá Egilsstöðum og upp með fljótinu að norðanverðu, kemur bæði Skriðdælingum og Uppvallamönnum að góðu haldi; annars eru þeir engu bættari. Það má búast við því, að töluverður kostnaður stafi af sæsímanum yfir Lagarfljót, en þó mun ekki vera tiltök að leggja símann öðruvísi, því fljótið er alt of djúpt fyrir staura.

Efri hluti Hjeraðsins hefir með rjettu verið talinn með bestu sveitum landsins; framleiðslan er mikil og þjettbýli. það er því ekki nema eðlilegt, að bændur þar þurfi að komast í símasamband, enda hlyti það að bera sig.

Jeg hefi ekki enn snúið mjer til landssímastjóra með þetta mál, en heyrt hefi jeg, að hann væri því hlyntur; öll sanngirni mælir og með því, að þessi sími verði lagður.

Jeg legg til, að málinu verði, að loknum umr., vísað til hv. samgöngumálanefndar.