17.07.1919
Neðri deild: 9. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í C-deild Alþingistíðinda. (3621)

42. mál, vatnalög

Einar Arnórsson:

Jeg hefi ekki hugsað mjer að munnhöggvast mikið eða lengi við hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), út af ræðu hans í gær.

Það voru að eins fáein atriði í henni, sem jeg ætla að gera athugasemdir við.

Hv. þm. Dala. (B. J.) og sömuleiðis hv. þm. (V.-Sk. (G. Sv.) gátu þess í ræðum sínum í gær, að klofningurinn hefði orðið í fossanefndinni út af hreinum og beinum aukaatriðum. En því mótmælir hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann telur það aðalatriði.

Nú hefir nefndin, eins og menn vita, klofnað um það, hvort landeigandi væri eigandi vatnsins. En jeg vil leyfa mjer að kalla þetta „teoretiskt“ atriði. — Vil jeg nú fyrst rekja þau atriði, sem nefndin öll er sammála um.

Jeg veit ekki betur en að það sje einróma álit hennar, að vötn utan heimalanda lögbýla heyri undir umráð ríkisins. Ef minni hl. er þar á annari skoðun, þá kemur mjer það alveg á óvart, því um það var öll nefndin sammála, þegar hún klofnaði. Enn fremur veit jeg ekki betur en að samkomulag sje um það, að hverri jörð, eða landareign, fylgi heimild til vatnsnota handa sjer til hverskonar þarfa sinna. Þá er að eins eftir spurningin um þau vatnsnot, sem landareignin ekki þarf með.

Nú veit jeg ekki betur en að bæði í gömlum og nýjum lögum sjeu þau vatnsnot heimiluð öðrum, sem jörðin þarf ekki með sjálf. Má þar til nefna áveitulög bæði yngri og eldri, t. d. Jónsbók, Llb. 22. kap., og vatnsveitulögin frá 22. nóv. 1913, nr. 65. Námulögin frá 1909 eru einnig merkileg að því leyti, sem þau taka til vatnsorku. Það atriði, sem ágreiningnum veldur, er því það, hvort landeigandi eigi vatn eða orkunytjar vatns, sem ekki eru nauðsynlegar handa 1andi hans.

Það er ágreiningsefnið, sem nú hefir verið blásið svona upp. Það er að vísu eðlilegt, þar sem það snertir hagsmuni nokkurra manna. En annað mál er það, hvort það skiftir svo miklu máli hagsmunalega, þegar alt er krufið til mergjar. Það fer eftir því, hvers virði vötnin, eða öllu heldur vatnsorkan, verða í framtíðinni, en það er aftur undir því komið, hvaða stefna verður tekin af löggjöfinni um sjerleyfi og sjerleyfaveitingar. — Jeg býst við, að allir skilji, hvað í þessu orði felst, þótt það sje nýtt orð í málinu.

Ef sú stefna yrði nú efst á baugi, að hverjum, sem hafa vildi, yrði veitt sjerleyfi til að virkja vatn, þá myndu þeir ekki þurfa að kvarta, sem þegar hafa fengið vatnsnytjar á hendur sínar. þeir myndu þá auðvitað ganga fyrir með að virkja þau vatnsföll, sem þeir hafa náð tangarhaldi á, og sama er að segja um þá, sem hvorki hafa selt nje leigt nú. En hverfi nú orkunytjar vatnsins undir umráð ríkisins, þá geta þeir hvorki selt nje leigt, sem eiga það ógert, og gæti þá komið fram misrjetti nokkurt, en þó ekki í stórum stíl, þar sem svo er komið, að öll hin stærri orkuvötn eru komin á hendur einstakra manna og fjelaga. Það eru því ekki eftir nema óálitlegri vötnin, sem bíða mundu marga mannsaldra, ef tekin væru til virkjunar öll stærri vötnin, sem nýtileg eru.

Það getur verið, að til sjeu einhverjar smásprænur óseldar, sem menn myndu renna hýrum augum til, ef veitt yrðu sjerleyfi í stórum stíl og ótakmarkað.

En nú mun nefndin öll sammála um það, að slíkt komi ekki til mála, heldur sje sjálfsagt að gæta þar hinnar mestu varúðar. Og jeg hefi hjer fyrir framan mig álit hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), þar sem hann rjettilega tekur þetta fram, að gæta verði hinnar mestu varúðar í veitingu sjerleyfa. Talar hann þar um málið frá því sjónarmiði, að stóriðjan mundi draga verkalýðinn frá öðrum atvinnuvegum landsins, sem ekki mega neinn vinnukraft missa.

Enn fremur bendir hann rjettilega á það, að annars vegar yrði að flytja inn í landið útlendan verkalýð, og tekur hann þar fram hættu þá, sem af slíkum innflutningi stafar, bæði fyrir tungu þjóðarinnar, siðferði o. fl.

Ef maður má ráða af þessu áliti hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), þá getur það ekki orkað tvímælis, að hann er á sama máli og hv. meiri hl. um það, að ekki sje gerlegt að veita nokkrum einstaklingi eða fjelagi sjerleyfi til vatnsvirkjunar í stórum stíl. En ef sú stefna nær fram að ganga, að veita engin, eða mjög fá, sjerleyfi, og alt útlit er fyrir, að svo verði, ef hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og hv. þm. Dala. (B. J.) fá að ráða, þá er það gefið, að seld og óseld vötn renna frá fjalli til fjöru, eins og þau hafa áður gert, um ófyrirsjáanlegan tíma, því að þó gera megi ráð fyrir nokkurri fólksfjölgun, þá verður hún aldrei svo ör, að hægt sje að veila sjerleyfi með það fyrir augum, að nægur vinnukraftur sje til meðal landsmanna. Mjer er því spurn, hvers virði er þessi vatnsorka, sem enginn fær leyfi til að virkja? Og þótt hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) haldi fast fram þeirri skoðun, að einstaklingarnir eigi vatnið, þá dylst honum þó ekki, að hið opinbera löggjafarvald getur sett þær reglur um vatnið, er því býður við að horfa, og fram hjá því verður ekki farið, ef nota á vatnið til stóriðnaðar, eða annara stórfyrirtækja. Og það getur verið svo geysileg afmörkun í reglum hins opinbera, að þó að það á pappírnum viðurkendi eignarrjettinn, þá væri sú viðurkenning einskis virði, eða með öðrum orðum, það tæki það með annari hendinni, sem það gæfi með hinni. Það væri sama og sagt væri við mann: „Þú átt vatnið, en mátt ekki nota það“, eða eins og menn segðu við bóndann: „Þú átt jörðina, en mátt ekki rækta hana.“ Ef þessi stefna verður því tekin upp, er það auðsjeð, að þau vötn, er seld hafa verið, verða verðlaus, og þau, er ekki hafa verið seld, verða óseljandi og óleigjandi, og því einnig verðlaus. Þau verða því engan veginn verðminni heldur en þótt landið tæki eignarrjettinn í sínar hendur. Ef því stefnan um algert bann gegn sjerleyfum, eða stórfeldar takmarkanir á veitingu þeirra, sem stafar fyrst og fremst hættunni, sem leiðir af of örum innflutningi útlendinga, og í öðru lagi af hættunni, sem vofir yfir öðrum atvinnuvegum landsins, sökum verkamannaeklu, þá virðist mjer spurningin um eignarrjettinn vera algert aukaatriði.

Þá vil jeg minnast nokkru nánar á nefndarálit hv. minni hl. (Sv. Ó.). Jeg hefi drepið nokkuð á hinar almennu athugasemdir hans á bls. VIII, IX og X, en mjer finst þær stinga nokkuð í stúf við skoðanir hv. þm. (Sv. Ó.), þegar hann fer að tala um einu leyfisbeiðnina, sem komið hefir til fossanefndarinnar. Jeg á við beiðnina frá fossafjelaginu „Titan“, sem fer fram á að fá sjerleyfi til að virkja alla Þjórsá í 15 ár, en úr þeirri á er hægt að vinna alt að 1000000 hestafla. Hv. minni hl. (Sv. Ó.) telur að vísu ekki gerlegt að veita leyfið eins og um er beðið, en hann álitur ekki frágangssök að leyfa fjelaginu að virkja Urriðafoss og Hestafoss, er hafa til samans 140–150 þús. hestorkur. Minnir mig, að háttv. 1. þm. S.- M. (Sv. Ó.) vilji leyfa fjelaginu að hafa fullvirkjað fossa þessa innan 5 ára. Eftir reikningi þessa fjelags þarf það að hafa þegar í þjónustu sinni 2000–3000 verkamenn. Gera má ráð fyrir, að hver þessara verkamanna hafi 5 manns í fjölskyldu, og yrðu það þá um 10000–11000 útlendir verkamenn, sem inn yrðu að flytjast á þessum 5 árum. Jeg veit að vísu ekki um mælikvarða hv. þm. (Sv. Ó.) á því, hvað hann álítur óhætt vera að margir útlendingar flytjist inn á einn stað á sama tíma, en hvað sem því liður, þá kemur þetta algerlega í bága við aðrar athugasemdir hans. Sennilega hefir hann ekki athugað nógu gaumgæfilega, hversu mikinn vinnukraft þyrfti til að virkja þessa tvo fossa.

Þá vil jeg víkja nokkuð að eignarrjettinum.

Þó einhver þjóð hafi viðurkent eignarrjett einstaklinganna á vatni, þá tíðkast nú víða sú stefna, að virkjuð vötn falla eftir vissan áratíma undir ríkið. Þessa reglu hafa þær þjóðir tekið upp, sem áður hafa „forskrifað sig“, t. d. Norðmenn, því nú eru þeir ekki fáir þar í landi, sem farnir eru að sjá, hver hætta stafaði af að viðurkenna eignarrjett einstaklinganna á vatni, eins og þar var gert með lögunum 1. júní 1887.

Þótt hv. minni hl. vitni mikið í Norðmenn í þessum efnum, sínu máli til stuðnings, þá vil jeg láta hann vita, að í Noregi var litið rannsakað, hvað draga mætti út úr fornum lögum um þessi efni, enda eru gömul lög Norðmanna um þessi efni miklu órækilegri en Grágás og Jónsbók. Þá spurði hv. minni hl. að því, hvað ætti að gera, ef þessi eignarrjettur væri ekki viðurkendur, og tók það dæmi, að ef einhver kæmi til manns og heimtaði land af honum, þá yrði það álitið rán og óhæfa. Jeg skal játa, að til eru þeir menn í landinu, en það er ekki meiri hl. fossanefndarinnar, sem halda því fram, að í raun og veru eigi eignarrjetturinn ekki að vera til. Þetta eru þeir menn, sem standa fyrir tímariti, sem gefið er út í Norðurlandi og nefnist „Rjettur“. Þessir menn telja hjer fyrir fólki trú Henry Georges, sem kendi, að taka bæri grunnrentu undir ríkið af öllum landeignum. Vill „Rjettur“ þeirra fjelaga leggja fyrst lágan skatt á eignirnar, en smáhækka hann svo, þar til jörðin er orðin einskis virði og falli þannig undir ríkið. Og mjer er nær að halda, að þessir menn standi ekki mjög fjarri hv. minni hl. (Sv. Ó.), heldur sjeu flokksbræður hans, eða að minsta kosti munu sumir þeirra ætla að bjóða sig til þings upp á stefnuskrá flokks þess, er hann tilheyrir, og þar með þessa „grunnrentu“-kenningu. Jeg veit reyndar ekki með vissu, hvort hv. þm. (Sv. Ó.) er sammála þessum mönnum, en þó finst mjer það ekki vera ólíkt gáfnafari hans, að hann geti sætt sig við það, að menn með tímanum missa jarðir sínar, en halda eignarrjetti sínum yfir vatninu.

Þá var minst á það, hvernig á því stæði, að greinargerð væri ekki enn komin með frv. þessum, en því hefir háttv. flm. (B. J.) svarað, svo jeg get leitt það hjá mjer að mestu. Þó vil jeg láta þess getið, að það er að mestu leyti sök hv. minni hl., því verkið gekk mjög seint, er nefndin var öll saman, því að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) tafði allmikið verk nefndarinnar með lítilsverðum og einatt fráleitum athugasemdum sínum.

Þá fann hv. þm. (Sv. Ó.) að því, að frágangurinn á frv. meiri hl. væri mjög slæmur. Hafði hann það aðallega út á hann að setja, að málsgreinar í grein hverri væru tölusettar og undirskiftingarnar merktar a, b, c, o. s. frv. Það hafði jeg aldrei haldið, að nokkur þm. áfeldi okkur fyrir þetta, því jeg hefi altaf vitað það talinn kost á lögum, að skiftingar allar væru sem greinilegastar, svo hægt væri að átta sig á þeim fljótlega. En auðvitað er það mikið leiðinlegt, úr því svona illa tókst til, að þeir menn, er voru með mjer við samningu frv., þeir hv. 6. landsk. þm. (G. B.), hv. þm. Dala. (B. J.) og verkfr. Jón Þorláksson, skyldu ekki hafa fengið að sitja altaf við fætur meistarans úr Firði, svo að þeir hefðu getað lært að semja lýtalaust frv. af honum.

Jeg skal taka það fram, að jeg hefi ekki viljað fara út í eignarrjettarspursmálið á þessu stigi málsins, því jeg geri ráð fyrir, að meiri hl. hv. þm. hafi ekki enn kynt sjer nógu vel ritgerðir bæði meiri og minni hl. nefndarinnar, því að skamt er síðan þær komu fram. Umræður um það efni eiga líka betur heima við 2. umr. eða frh. 1. umr.