08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Gísli Sveinsson:

Það er ekki nema rjett, að hv. þm. Dala. (B. J.) komi fram með fyrirspurn viðvíkjandi þessu máli, en þó tel jeg hana óþarfa, því jeg þykist sannfærður um, að stjórnin hefir nú þegar komið fram með þær ástæður, sem hún getur fram borið. En þessar ástæður hæstv. stjórnar eru þannig vaxnar, að tiltækið verður ekki forsvaranlegt.

Spurningin yrði þá að eins, hvort þessi bráðabirgðalög hefðu orðið varin á þeim tíma, er þau voru gefin, án þess að nú komi til þess, að Alþingi staðfesti þau með sínu samþykki.

En upprunalega hefir stjórnin rasað út í þetta mál, fyrir áeggjan þeirra, er kaupa vildu. Hafa þeir gert fjelag með sjer og fengið í lið með sjer ríkisstjórn Danmerkur, til þess að eiga hægra með að koma sínum vilja fram við landsstjórnina hjer.

Aftur á móti hafa landsmenn engu fengið að ráða, hvorki hvaða hross þeir selji, eða við hvaða verði.

En það lá þó hvergi nærri, að landsstjórnin þyrfti að taka málið í sínar hendur, til þess að annast um það, hvaða hross yrðu seld, því að til eru lög í landinu um það hvernig hross megi flytja út, og eftirlit má hafa með því, að þeim sje hlýtt. Og sannleikurinn er sá, að það, sem landsmenn selja, verða þeir að selja innan vjebanda þeirra laga, er þar um fjalla. Þeir geta því alls ekki sætt sig við það, að landsstjórnin setji þessar nýju hömlur á söluna, þar sem viðskifti eru nú orðin frjáls.

Það, sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði um skipakostinn, get jeg heldur ekki fallist á, því að auðvitað mundi stjórnin telja sjer það skylt, að hjálpa til við að útvega skiprúm hverjum þeim, er sendi hrossin, svo mikið nauðsynjamál er það; auk þess er það rjett, sem hv. 2. þm. Rang. (E. J.) sagði, að hrossin þurfa jafnmikið rúm, hvort heldur þau eru stjórnarhross eða annara.

Jeg vil ekki ganga út frá því, að myndaður sje hringur milli stjórnarinnar og „húmbugs“-nefnda þessara, þannig að það eitt geti náð fram að ganga, sem af þeim er ráðstafað. En þá færi að vandast málið, og vafasamt, hvort þingið ætti ekki að taka í taumana sem fyrst.

En hjer mun ekki þýða að spyrja neitt frekar. Landsstjórnin hefir þegar bundið söluna, og það á mjög óhagkvæman hátt.

Alþingi verður því annaðhvort að ganga að þessu, þótt það skaði landsmenn um hundruð þúsunda kr. (Atvinnumálaráðh.: Hvernig vita menn það?) Það mun brátt verða uppskátt. Hv. þm. Dala. (B. J.) hefir einnig bent á, að boð hafi komið um hærra verð, og mun vera fyrir því full vissa. Eða þingið synjar um samþykki sitt og lætur stjórnina bera ábyrgð á þessu, sem hún þó sjálfsagt ekki rís undir.

En þess vænti jeg þó ekki. Stjórn þessi hefir hingað til framið svo mörg hneykslismál, og lítt verið um fengist, svo að ekki er líklegt, að mikið verði úr gert þeim smámunum, að hún skaði landsmenn, bændur og búalið, nú um nokkur hundruð þúsunda króna.

En það finst mjer rjett vera, ef einhver skyldi hnýsast í þessi mál síðar meir, að þá sjáist það skýrt og verði öllum mönnum vitanlegt, hvað stjórnin hefir gert og hvernig því var tekið af hv. þingi.