22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í C-deild Alþingistíðinda. (3657)

60. mál, atvinnufrelsi

Einar Arnórsson:

Háttv. flutnm. þessa frumv. (B. J.) hefir ætlast til, að það gengi til allsherjarnefndar, og það er rjett, að frv. á hvergi annarsstaðar heima. En málið er óneitanlega margþætt og margþættara en flm. líklega gerir sjer ljóst. Það verður að vera fleira í þess háttar lögum en tekið er fram í frv., og margt er það í núgildandi lögum, sem þarf að breyta samkvæmt því. Það er eðlilegt, að flm. hafi ekki getað gert frv. betur úr garði, því að hann hefir ekki haft eins mikinn tíma til þess og nauðsynlegt er. Hann hefir ekki haft tíma til að rannsaka önnur lög og sníða frv. sitt eftir því og ganga svo frá því að lokum, að viðunandi sje. Og með fullri virðingu fyrir hv. þm. Dala. (B. J.) verð jeg að efast um, að hann hafi verið fær um það. Jeg held, að það sje á einskis eins manns færi að gera þannig lagað frv. úr garði. Til þess að gera það þarf að athuga og taka tillit til ástandsins í hverri atvinnugrein fyrir sig. Það verður að athuga, hvort heppilegt er að setja mjög ströng skilyrði í einni grein, þótt það eigi við í annari.

Jeg er fullviss um það, að þingið hefir nú ekki þeim kröftum á að skipa, sem nauðsynlegir eru til að koma málinu í viðunandi horf á þessu þingi. Það er heldur enginn tími til þess. Og þó að ætti að fara að leita utan þings, þá efast jeg um, að hægt væri að fá hæfa menn á öllum sviðum á svo stuttum tíma, og þó að það væri hægt, þá er líka vafamál, hvort þeir fengju nokkru á orkað fyrir þetta þing. Málið er þannig vaxið, að það þarfnast ítarlegrar rannsóknar og undirbúnings.

Það er ekki óhugsandi, að það mætti taka eina og eina atvinnugrein út úr og setja ákvæði um hana. Það er alls ekki óhugsandi, að slíkt yrði nauðsynlegt.

Það, sem gera þyrfti, er að fá stjórninni málið til undirbúnings og skora á hana að leggja fyrir næsta þing breytingar á löggjöfinni í þessa átt. Þingið mætti ekki ætlast til, að ráðherrarnir gerðu það sjálfir eða aðstoðarmenn þeirra. Það yrði að heimila stjórninni að taka sjer aðstoð utan sinna vjebanda. Þó að stjórnin og stjórnarráðið kunni að vera mikilvirkt, þá held jeg þó, að þetta mál sje eigi á þeirra færi, þar sem ótal mörg önnur störf kalla að. En alt fyrir það á flm. (B. J.) þakkir skilið fyrir að hafa hreyft málinu; því mundi hafa verið hreyft eigi að síður, þótt hann hefði ekki orðið til þess. Málið hefði áreiðanlega komið fram, þótt í öðru formi hefði verið. En jeg held, að þetta þing geti ekki leitt það til lykta, því að málin hafa dunið svo yfir það úr öllum áttum, að það hefir ærinn starfa fyrir. Jeg álít ekki heldur, að nein hætta geti stafað af því, þótt frv. verði látið bíða eða verði vísað til stjórnarinnar. Mjer er ekki kunnugt um, að von sje á neinum stórkostlegum innflutningi á næstunni. Jeg veit að minsta kosti ekki til þess og tel það ekki líklegt.

Náttúrlega er ýmislegt, sem vantar í þetta frv., og er það síst að furða, eins og jeg hefi bent á áður. Og svo jeg nefni dæmi, máli mínu til stuðnings, þá eru engin ákvæði um það, hve nær megi og eigi að vísa manni úr landinu. Slíkt ákvæði hefði þurft að vera.

Mjer vitanlega eru að eins 2 ákvæði í núgildandi lögum, sem ákveða, hve nær menn skuli fluttir af landi burt. Það er 17. gr. hegningarlaganna, sem segir, að hafi maður, sem ekki er þegn landsins og hefir eigi verið búsettur síðustu 5 árin í löndum Danakonungs, orðið brotlegur svo sem þar segir, þá skuli hann, þegar hann hefir úttekið refsingu, vera dæmdur til að fara burt úr landinu. Hitt ákvæðið mun vera í fátækralöggjöfinni. Fyrir utan þessi tvö ákvæði er ekkert það í löggjöf okkar, svo að jeg muni í svip, sem heimilar að vísa annara ríkja þegnum af landi burt. Það getur þó verið full ástæða til þess, og almenningsheill getur verið það nauðsynlegt. Það geta t. d. verið upphlaupsmenn og aðrir, sem nauðsynlegt væri að losna við. Í löggjöf annara landa eru líka ákvæði, sem heimila að vísa þess háttar mönnum úr landi. Einnig gætu það verið menn, sem flyttu skaðlegar kenningar, og fleiri tilfelli mætti eflaust finna. Það geta verið skiftar skoðanir um það, hvað langt á að ganga í því, að vísa mönnum úr landi, en þó er sjálfsagt að athuga það, og full ástæða til að setja einhver ákvæði því viðvíkjandi.

Þá kem jeg að því, sem stendur um tunguna. Það er að eins talað um, hve nær menn öð1ast rjettinn, en ekki hvernig menn missa hann. Þetta verð jeg að telja galla. Maður getur komið og lýst því yfir, að hann ætli að reka hjer atvinnu um lengri tíma. Þá er ómögulegt annað en taka manninn trúanlegan. Hann byrjar svo á atvinnurekstri sínum á þessum grundvelli. Það stendur ekkert um það, hvernig hann verður vistfastur eða hvort hann verður það. En það er vani að taka þetta fram. Hv. þm. Dala. (B. J.) las upp ákvæðið í dönskum lögum um, hverjir mættu kaupa verðbrjef í kauphöllinni, þar sem tilnefnd eru 5 ár, svo það geta ekki aðrir en þeir, sem eru danskir ríkisborgarar. Það er að þessu leyti spursmál, hvort ekki er of skamt gengið í frv.

Þá er það enn eitt mikilsvert atriði, sem hefir gleymst og miklu máli skiftir. Það er ákvæðið um útlend fjelög. Því að hvers virði er ákvæðið um atvinnurjett einstaklinganna, ef ekkert er tekið fram um atvinnurjett fjelaga? — Þeir, sem vilja reka hjer atvinnu, en ekki geta eða vilja uppfylla þau skilyrði, sem sett eru því viðvíkjandi, þeir þurfa ekkert annað en mynda fjelag, og þá er ekkert til fyrirstöðu. Það getur verið auðvelt að setja hjer ákvæði um útlenda einstaklinga, en það verður verra viðfangs að setja líka ákvæði um útlend fjelög. En það verður þó að gera, fyrst af því, að án þess eru ákvæðin um einstaklingana hjegómi einber, og svo af því, að af útlendum auðfjelögum getur okkur stafað meiri hætta en af einum og einum manni. Þess vegna verður að vera hæfilegt ákvæði um þetta efni, þó að ekki verði auðvelt að koma því fyrir.

Um tunguna er það að segja, að ákvæðið um hana er ekki fullnægjandi. Jeg á hjer ekki við tímann, því að hann er nógu stuttur, og ef til vill of stuttur. Ákvæðið er þannig, að ef menn hafa ekki lært tunguna fyrir ákveðinn tíma, þá missa menn atvinnurjett sinn. En þetta gildir að eins um þá, sem atvinnurjettinn hafa. Nú er óhætt að gera ráð fyrir, að ekki verði það alt einhleypir menn, sem hingað flytja. Fjölskyldumenn geta fengið hjer atvinnurjett og uppfylt skilyrðin, þótt öll fjölskyldan uppfylli þau ekki. Ef börnin eru ung, þá verða þau að vísu að ganga í skóla og læra þar málið, en konan getur dvalið hjer áfram án þess að læra nokkuð í því. Eins getur verið, að öll börnin sjeu komin yfir skólaskyldualdur, og þá læra þau aldrei málið. Nú — þó einn maður hafi fyrirgert atvinnurjetti sínum, þá hefir hann þá landsvist. Það getur loks verið, að hann þurfi ekki á atvinnurjett að halda, eigi fje eða komist af án þess að reka hjer atvinnu.

Í Þessu gengur frv. of skamt, en svo gengur það of langt á öðrum sviðum. Svo jeg nefni dæmi, þá getur t. d. bóndi fengið útl. vinnumann. Það getur verið, að hann læri að bjarga sjer, en hvort hann læri svo mikið, að fullnægjandi þyki, er aftur á móti efasamt. Það er varla að búast við, að honum gefist mikill kostur á að læra íslensku, því að til annars er hann hingað kominn.

Þótt jeg hafi gert þessar athugasemdir við frv., þá vil jeg ekki með því segja, að ekki sje sjálfsagt að sinna málinu. Sennilega er ákvæðið um útlenda einstaklinga að sumu leyti of strangt, og býst jeg við, að flm. (B. J.) geti fallist á það. Svo jeg nefni eitt dæmi enn, þá mundi það vera hart fyrir útgerðarm., er rjeði útlendinga á skip sin, að þurfa að borga þeim fátækrastyrk, ef til þess kæmi. Annað mál er það, að ef yrði settur hjer upp iðjurekstur með útlendu verkafólki, þá yrði að búa svo um hnútana, að iðjuhöldur borgaði þá fúlgu, sem það þyrfti með, svo það legðist ekki á landið, ef illa færi.

Þótt jeg hafi farið hjer út í einstök atriði og bent á margt, sem mjer þótti ábótavant, þá má enginn skilja það svo, sem jeg sje á móti því, að málið verði tekið til meðferðar og reynt að fara með það á sem bestan hátt. En jeg er hræddur um, að það verði aldrei afgreitt að fullu á þessu þingi, enda álít jeg ekki, að þess sje brýn þörf. — Það er sjálfsagt að vísa málinu til allsherjarnefndar og sjá til, hvað hún gerir við það.