22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í C-deild Alþingistíðinda. (3658)

60. mál, atvinnufrelsi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg býst við, að jeg hafi tekið það fullskýrt fram í ræðu minni, að jeg hefði ekkert á móti því, að málið væri tekið til rækilegrar athugunar. Og þegar hv. þm. Dala. (B. J.) talaði við mig, mun jeg ekki hafa tekið því fjarri, að svo yrði gert. En að hann hafi oft talað við mig man jeg ekki eftir og get ekki kannast við. Mig minnir, að hann hafi ekki talað við mig nema einu sinni, enda var ekki ástæða til þess fyrir hv. þm. (B. J.), því jeg tók það skýrt fram, að málið væri of flókið til þess, að stjórnarráðið sæi sjer fært að undirbúa það nægilega nú, með öllum þeim málum öðrum, sem lágu fyrir. Það kann nú að vera, að það megi kalla þetta ónytjungsskap af stjórninni, en okkur fanst við ekki geta gert meira til undirbúnings þessu þingi en við gerðum.

Jeg lít á framkvæmdir þessa máls líkt og hv. 2. þm. Árn. (E. A.), að það þurfi talsverðan undirbúning, ekki að eins lögfræðinga, heldur og annara, er til þekkja. Jeg býst ekki við, að það þurfi milliþinganefnd, en hins vegar gæti stjórnin fengið aðstoð fróðra manna, eins og í öðrum málum. Annars verð jeg að segja, að jeg hefði hagað orðum mínum á annan veg og talað minna um einstök atriði málsins, ef hv. þm. Dala. (B. J.) hefði sagt það í byrjun, að þetta væri ekki beint til að segja nákvæmlega, hvað hann ætlaðist til, heldur væri þetta einskonar „prógram“-mál. (B. J.: Jeg sagði það í fyrstu ræðu minni). Það get jeg vel skilið. En hvernig hann hygst að geta skift flokkum um þetta mál með því móti, er mjer ekki ljóst. Og jeg efast um, að hann geti það.