25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í C-deild Alþingistíðinda. (3680)

80. mál, sérleyfi til hagnýtingar á orkuvötnum og raforku

Flm. Sveinn Ólafsson):

Jeg ætla að leyfa mjer að leiðrjetta misskilning, sem kom fram í ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.). Jeg geri ráð fyrir, að þessi misskilningur sje sprottinn af því, að hann hefir ekki lesið greinargerð mína við sjerleyfislagafrv. nógu rækilega. Jeg gerði ekki ráð fyrir, að þingið yrði rofið, þótt sjerleyfi yrði samþ., heldur að málið yrði ekki afgreitt fyr en eftir nýjar kosningar. Þingið mundi þá sitja sinn kjörtíma, en við næstu kosningar ljeti þjóðin í ljós álit sitt á málinu. Jeg get ekki litið svo á, að það skifti miklu máli, landsins vegna, hvort slíkt leyfi dregst tveim árum lengur eða skemur, og óþarfa tel jeg að flýta sjerleyfisveitingum, að eigi verði beðið kosninga, einkum þegar ráðgert er að stytta kjörtímabil úr því, sem nú er.