28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í C-deild Alþingistíðinda. (3687)

85. mál, skipun prestakalla (Ísafjarðarprestakall)

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Mjer þótti vænt um, að ástæðurnar fyrir frv. voru taldar góðar og gildar af hæstv. forsætisráðherra (J. M.). En hvað því viðvíkur, að frv. eigi samt sem áður ekki fram að ganga að þessu sinni, þá get jeg vitanlega ekki fallist á það. Ef þingið á annað borð vill lita með sanngirni á þær kröfur, sem fram koma, þá á það að líta á þær þegar í stað. Og ef þingið viðurkennir sanngirni þeirra, þá á það að verða við þeim, og það einnig þegar í stað. Það má ekki setja það fyrir sig, hvað kunni að vera á ferðinni, eða hvað kunni að komast á ferðina; ef kröfurnar eru sanngjarnar og framkvæmanlegar, þá á að framkvæma þær, og dráttur verður þar ekki til neins góðs. En þetta frv. hefir í sjer fólgnar kröfur, sem bæði eru sanngjarnar og framkvæmanlegar, og liggur á að fullnægja.

Jeg veit, að víða er erfitt, en óvíða held jeg þó, að ferðin á annexiuna kosti eins og þarna, yfir 100 krónur. Jeg efast um, að það sje nokkursstaðar á landinu. Þá kom hæstv. forsætisráðh. (J. M.) með það ágæta ráð, að presturinn gæti sjálfur átt bát til annexiuferðanna. En fyrir hvað á prestur með 1300 kr. launum að kaupa bát, sem nú kostar þrisvar, fjórum sinnum þá upphæð, eigi hann að vera að nokkru gagni til þeirra ferða, sem hjer ræðir um? Allir vita, að 1300 kr. eru að eins fyrir litlum hluta út bát, og þá er eftir viðhald og rekstur. Jeg get talað um þetta af þekkingu, því jeg hefi einmitt átt mótorbát til embættisferða. En jeg gat ekki klofið þann kostnað með embættislaunum mínum. Fyrir núverandi prest á Ísafirði er þetta ógerningur; honum duga föstu launin naumast til að borga eins árs húsaleigu. Hjer þýðir þess vegna ekki að tala um svona lagaða hluti; þeir eru frágangssök.

Það væri náttúrlega ákjósanlegast frá sparnaðar- og fjárhagslegu sjónarmiði, að geta fækkað prestum, en það verður að gera með því, sem er, og almenningur vill miklu fremur fjölgun en fækkun, og til þessara óska verður þingið að taka tillit, vilji það sýna söfnuðum landsins nokkra sanngirni. Og þó að þingið kunni að álita, að þetta sjeu stundum ekki annað en keipar fólksins, þá er því ekki hjer til að dreifa, og þinginu ber þó óneitanlega að taka tillit til vilja fólksins. Það kann vel að vera, að víðar sje um brýna þörf að ræða, en jeg fullyrði, að hjer sje þörfin jafnbrýnust, því auk annara ástæðna, er jeg hefi nefnt, hefir þessi sókn meiri fólksfjölda en hvert meðalprestakall. Jeg veit, að það lætur vel í eyrum kjósenda að fjölga ekki embættismönnum. En jeg er löngu orðinn leiður á því. Jeg ætla ekki að bera hæstv. forsætisráðherra (J. M.) það á brýn, að hann vilji kitla eyru almennings. Þetta fækkunarskraf mun oft sprottið af gömlum ímugust á embættismönnum, sem hefir legið í landi hjer. Það hafa oft heyrst háværar raddir á þingmálafundum víða úti um land um það, að ekki mætti fjölga embættismönnum, hvorki prestum nje læknum. En sömu fundirnir hafa samþykt í einu hljóði áskoranir um fleiri presta og lækna, vel að merkja í sínu kjördæmi. Allir sjá, hvílíkt samræmi er í öðru eins. Menn segja í öðru orðinu: Við viljum ekki hafa marga embættismenn, en í hinu: Við viljum þó hafa þá svo marga, að þeir geti sint öllum kröfum okkar og þörfum. Þótt hæstv. stjórn sje mótfallin fjölgun embætta á öðrum stöðum, þá sje jeg ekki betur en einn liðurinn í fjárlögunum sje 28 þús. krónur til að setja á stofn embætti í Kaupmannahöfn, sem vel mætti bíða; þá er ekkert tómahljóð í skúffunni. Satt að segja held jeg, að það mundi ekki rýra sóma hins nýja, Íslenska ríkis tilfinnanlega, þótt þessi „toppfigúra“, sendiherrann í Kaupm.-höfn, fengi að bíða dálítinn tíma.

Jeg er sammála hæstv. forsætisráðh. (J. M.) um, að þótt skilnaður ríkis og kirkju sje kominn á dagskrá hjer á þingi, þá muni það mál eiga svo langt í land, þar til framkvæmt verði, að óþarft sje að taka nokkuð tillit til þess í umræðum um þetta mál. Jeg vil taka það fram um þetta mál, sem hjer er til umr., að bæði prófastur prestakallsins og biskup landsins mæla eindregið með því, að þessi skifting gangi fram. Og er það þó kunnugt mál, að biskup vor fer síst hvatvíslega í sundurgreining prestakalla. En um þetta mál fórust honum þannig orð, að hjer yrði hann að beygja sig, því hann teldi, að hjer væru alveg sjerstaklega veigamiklar ástæður fyrir hendi. Jeg ætla ekki að fjölyrða um þetta meira, en vil leggja til, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, að umr. lokinni.