28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í C-deild Alþingistíðinda. (3689)

85. mál, skipun prestakalla (Ísafjarðarprestakall)

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer þótti hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) leggja helst til mikla áherslu á þessi 1300 kr. laun prestsins á Ísafirði. Jeg talaði aðallega með till. launafrv. fyrir augum. Þó að miðað væri við núverandi laun, þá gæti jeg hugsað mjer, að bætt yrði úr með erfiðleikauppbót til prestsins. Auk þess er aðgætandi, að prestar í fjölmennum prestaköllum, eins og Ísafjarðarprestakall er, hafa talsverðar aukatekjur auk árslaunanna. Það er auðvitað, að ókleift yrði að kaupa flutningstæki af eins árs launum fyrir prestinn. En það er heldur ekki gert ráð fyrir, að hann þurfi að kaupa mótorbát á hverju ári, svo það mætti dreifa kostnaðinum niður á fleiri ár. Jeg get nú ekki sagt um með neinni vissu, hvað mundi kosta að kaupa slíkan bát og halda honum úti. Það mundi sjálfsagt nema nokkru. En þó hygg jeg, að það mundi verða minna en ef hver ferð milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur kostar hundrað krónur eða þar yfir. Annars sje jeg ekki ástæðu til að ræða þetta mál meir. Jeg tel ekki forsvaranlegt annað en að vísa því til nefndar; það hefir við svo mikil rök að styðjast, eins og jeg sagði áðan. Jeg hafði ekki athugað, er jeg talaði áðan, að það er þegar komin ein brtt. um að fjölga prestaköllum. Og jeg geri ráð fyrir, að búást megi við fleiri slíkum tillögum, sem út af fyrir sig geta haft töluvert til síns máls.