21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Frsm. (Jón Jónsson):

Það hefir verið spurt að því hjer í deildinni, hvað stjórninni hafi gengið til að taka að sjer einkasölu á hrossum. Að vísu hefir ekki verið mikið um svör enn þá, en jeg býst við, að stjórnin svari við þessa umr.

Í athugasemdum við frv. stjórnarinnar um einkasölu á hrossum er svo að orði komist:

„Til þess að reyna að tryggja hagkvæma sölu íslenskra hrossa á erlendum markaði, og til þess að draga úr erfiðleikum við flutning hrossa til útlanda, vegna ónógs skipakosts, taldi stjórnarráðið nauðsynlegt að hafa heimild til að taka í sínar hendur sölu á hrossum til útlanda og svo útflutning þeirra.“

Þetta eru töluverðar ástæður og þessi athugasemd stjórnarinnar hefir við rök að styðjast. Það sjest hvergi á skjölum þessa máls, að stjórnin hafi tekið fram fyrir hendurnar á útflutningsnefnd um það, hverjum selja skyldi hrossin. Sumum kann að hafa dottið í hug, að hrossin hafi verið boðin dönskum húsmönnum til sölu af þeirri ástæðu, að þeir eru samvinnufjelagsmenn. En ekki verður sjeð, að stjórnin hafi haft tilhneigingu til að selja þeim öðrum fremur. Það er vitanlegt, að danska stjórnin fór fram á það við íslensku stjórnina að hafa á hendi einkasölu á hrossum, og gaf henni von um hátt verð. Það hefir þess vegna við engin rök að styðjast, að danska stjórnin hafi farið fram á þessa einkasölu í því skyni, að fá ódýr hross frá Íslandi. Hún gat miklu fremur litið svo á, að þetta væri nauðsynlegt fyrir Dani, til þess að fá nægan fjölda hesta, en hins vegar ekki lagt verulega áherslu á verðið. Þegar litið er á samninga útflutningsnefndar við útflutningsnefndarmanninn, er ekki hægt að saka nefndina um, að hún hafi ekki reynt að fá eins hátt verð fyrir hrossin og frekast var hægt. Menn mega ekki kippa sjer upp við það, þótt verðið á hestunum sje lægra en í fyrra, því að danskir hestar eru nú í hálfu lægra verði en þeir voru þá. Útflutningsnefnd barst tilboð frá dönskum hrossakaupmönnum snemma meðan á samningunum stóð, og síðan ítrekaði nefndin við húsmannafjelögin, hvort þau vildu greiða hærra verð fyrir hestana en hrossakaupmennirnir höfðu boðið. Þau kváðust ekki vilja greiða hærra verð. Hinn 5. júní kom tilboð frá Louis Zöllner. En það er ekki álitlegt. Loks leitaði nefndin fyrir sjer um hrossamarkað í Svíþjóð; en þar var engin eftirspurn eftir þeim, nema fyrir mjög lágt verð. Nefndin hefir þess vegna leitað fyrir sjer um hestamarkað þar sem helst voru tök á, í Danmörku, Svíþjóð og Englandi. Og þessi tilraun hefir gengið, eins og nefndarálitið ber með sjer. (B. J.: Reyndi nefndin ekki fyrir sjer í Þýskalandi?) Nei, nefndin hefir ekki leitað þar fyrir sjer. Hún bjóst við, að það mundi vera miklum erfiðleikum bundið að semja við Þjóðverja, og sá sjer því ekki fært að beina neinum samningaumleitunum í þá átt. En hins vegar er gert ráð fyrir markaði á Suður-Jótlandi, ef það verður danskt. Og hrossamarkaður hefst aftur í Þýskalandi, þegar kleift verður að semja við Þjóðverja með góðu móti.

Þegar hjer var komið sögunni, tók nefndin að semja við nýjan hestakaupmann, Trygg Levin Hansen að nafni. Þessar samningaumleitanir komust svo langt, að hann var talinn bundinn við tilboð um að kaupa alla íslenska hesta, sem út yrðu fluttir þetta ár, fyrir 400–600 kr. En gallinn á þessum samningaumleitunum var sá, að tryggingu vantaði, enda kipti Hansen að sjer hendinni, þegar á átti að herða. Hann hefir sennilega litið svo á, þegar hann fór að athuga málið betur, að hjer mundi vera gengið lengra en honum væri fært að efna. Hann fjekst aldrei til að gera neina skriflega samninga. En formaður útflutningsnefndar náði í fjelaga hans, Poulsen Karise, og hjelt áfram samningatilraunum við hann. En hann tók fyrst fjarri að skuldbinda sig til að kaupa alla íslenska hesta, sem út kynnu að verða fluttir þetta ár. Hann kvaðst ekki hafa efni á að hætta á að kaupa alt að 6 þús. hesta, ef svo illa skyldi takast til, að hann biði skaða af kaupunum. En loks gekk hann að samningum þeim, sem prentaðir eru í nál. Verðið er svipað og fjelagi hans hafði lofað, en seljandi skal greiða allan kostnað innanlands og almenna sjóábyrgð, og flutningsgjald, sem mestu munar, en að öðru leyti tekur kaupandinn við hestunum á sína ábyrgð á höfn hjer og greiðir verð þeirra, þegar þeir eru komnir á skipsfjöl og sjóábyrgðargjald greitt. Það, sem mun hafa hvatt hann til að skuldbinda sig til að kaupa svona mörg hross, um 4000 var, að hann gerði sjer von um markað fyrir alt að 1000 hross í Suður-Jótlandi. En eftir öllum upplýsingum að dæma eru ekki líkur til, að hægt sje að selja fleiri hross í sjálfri Danmörku en gert er ráð fyrir í erindi þeirra Brödr. Zöllner og P. Westergaard & Sön, þ. e. 3000 hross. En framboðið getur orðið svo mikið, að á markaðinn komi 6–8 þús. hross. Jeg veit að vísu ekki, hversu margir muni vilja selja hross, en af því að hrossasala hefir verið lítil undanfarin ár, geri jeg ráð fyrir, að salan verði nú í meira lagi. Það er ekki ósennilegt, að hægt sje að fá fleiri hross en ákveðið er í kaupsamningunum, eða yfir 4 þús.

Það liggur í augum uppi, að það var mikið vandamál að semja við nýja menn og nefndin hlaut að leggja áherslu á, að kaupendurnir gæfu tryggingu fyrir tilboðum sínum, svo ekki yrði gabb úr öllu. En það er einmitt þetta, sem gert hefir samningana erfiðari, því að það er að eins efnamönnum fært að leggja fram til tryggingar alt að 1 miljón króna, til þess að hægt sje að gera bindandi samninga.

Þá athugaði nefndin, hvort unt hefði verið að fá hærra verð fyrir hestana, ef samningunum hefði verið frestað. En hún gat ekki betur sjeð en útflutningsnefnd hafi verið ókleift að fá samningunum lengur frestað en til 24. júní, því að maðurinn, sem hafði skuldbundið sig til kaupanna, gat kipt að sjer hendinni, og gaf ekki lengri frest, og síðan gat farið svo, að engir kaupendur fengjust að hrossunum.

Útflutningsnefnd hefir og lagt sig í líma með að fá eins hátt verð fyrir hrossin og frekast var unt. Það eru engar líkur til, að kleift hefði verið að fá jafnhátt verð fyrir jafnmörg hross með frjálsri sölu. Þegar farið var að semja við Sameinaða fjelagið um flutningsgjald, kvaðst það ekki fara niður úr 125 kr. fyrir hvert hross, ef salan yrði í höndum einstakra manna. En með því að stjórnin annaðist sölu og útflutning, er flutningsgjaldið ekki nema 100 kr. fyrir hross hvert.

Jeg þarf ekki að fjölyrða frekar um þetta efni. Málið er augljóst, og menn ættu að geta áttað sig á því af nál.