29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í C-deild Alþingistíðinda. (3695)

86. mál, almenn hegningarlög

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg býst við, að þetta sje frv., sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði að stjórnin hefði lofað að koma með, en ekki gert.

Það er satt, að háttv. þm. (B. J.) mintist á það við mig, og svaraði jeg því, að þess væri þörf, en loforð held jeg að jeg hafi ekki gefið.

Það er rjett, að hjer þarf að breyta til, en um hitt er jeg ekki eins viss, að á ríði, að því sje breytt endilega nú, enda hygg jeg, að dæma mætti þau brot, sem um ræðir í frv., eftir núgildandi lögum, samkvæmt lögjöfnuði.

Það er annars margt fleira í lögum, sem breyta þarf, en stjórninni hefir ekki unnist tími til að leita í lögunum að því, er breyta þyrfti.

Stjórnin hafði ekki mikinn tíma til lagasmíða í þetta skifti, og held jeg þó, að ekki verði hægt að saka hana um, að hún hafi ekki gert talsvert í því efni.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að ræða frekar um mál þetta.