03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Bjarni Jónsson:

Jeg skal leyfa mjer að geta þess út af orðum háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að jeg lagði áherslu á þetta sama í ræðu minni, að maður þessi væri hvorttveggja í senn, sendiherra og ræðismaður. Hann á að sjá um öll Íslandsmál, bæði viðskiftamál landsins út á við og jafnframt helstu stjórnmálahreyfingar, sem geta komið því við.

En þetta grípur líka hvað í annað, og verður naumast að skilið.

Það mun vera allra meining hjer, að þessi maður eigi hvorki að vera til prjáls nje tildurs, heldur eins og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók fram, á hann að leggja mest kapp á það eitt, að sjá hag Íslands sem best borgið í hvívetna.

Það hefir líka áður verið bent á það hjer í dag, að til þess sje ekki ætlast, að hann hlaupi í kapp við sendiherra annara ríkja, að því er kostnaðinn snerti.

Enda sýnir upphæðin, sem til þessa er ætluð, það best, að honum muni ekki ætlað að sitja að sumbli alt árið, og hygg jeg líka, að enginn muni freistast til tíðra veisluhalda með þessum launum.

Að öðru leyti býst jeg við, að enginn geti haft á móti því, að þess sje full þörf að hafa slíkan mann nálægan, þegar eitthvað er að gerast, sem snert getur hag ríkis og þjóðar, en stjórnin getur ekki náð til.

Þá vildi jeg svara háttv. þm. Borgf. (P. O.) nokkrum orðum. Hann sagði, að við værum sammála um það, að þörf væri sendimanns. En hann vildi hafa verslunarráðunaut, en jeg sendiherra.

En jeg hefi nú ekki talað um slíkan sendiherra nema á þessum eina stað, vegna þess, að eins og stendur getum við ekki haft slíka menn víðar, sem sendir sjeu frá okkur sjálfum.

En þar sem hann hins vegar dró það út úr orðum mínum, að jeg hefði þóst hafa of lágan titil, þegar jeg var sendimaður landsins forðum, þá hlýtur það að hafa átt að vera fyndni. Landið hafði þá ekki fengið viðurkent fullveldi sitt.

Sá titill dugði mjer líka, af því hann var óvanalegur og eins góður eins og hægt var að gefa.

En hitt efast jeg ekki um, að þeir menn, sem þá voru á þingi, myndu hafa gefið slíkum sendimanni sendiherratitil, ef þess hefði verið kostur.

Þá hjelt háttv. þm. (P. O.) því fram, að jeg hefði sagt, að ekkert gagn væri að trúnaðarmanninum í utanríkisráðuneytinu. En það hefi jeg aldrei sagt. Og jeg get einmitt borið þann mann því hólinu, sem mest er, því að þegar jeg var sendimaður landsins og var af flestum hjer heima háði leiddur og heiftstöfum, þá var hann sá eini, sem jeg gat trúað.

En þessi maður er nú kominn í alt aðra stöðu.

Háttv. þm. (P. O.) sagði líka, að ráðherrarnir væru svo tíðir gestir í Kaupmannahöfn að engin þörf væri á sendiherra þar.

En jeg hygg þó, að hæstv. stjórn sitji minstan tímann í Kaupmannahöfn, og hún hefir þar ekkert tækifæri til að kynnast sendiherrum annara þjóða. Að jeg hefði stungið þessum danska sendiherra í vasa minn, var auðvitað ekki annað en mishepnuð fyndni. Jeg hafði að eins tekið nafnspjald hans með mjer, til að sýna, að jeg færi rjett með titil hans, sem jeg nefndi.

Í sambandi við það, að jeg mintist á B. Th. Melsteð og grein hans, og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) þá skal jeg geta þess, að mjer var það engin aufúsa að tala illa um hann, enda var það ekki hann sjálfur, heldur grein hans, sem háttv. þm. (S. S.) vitnaði í, sem jeg talaði um. Virtist háttv. þm. hafa fallist á það alt, sem þar var rangt sagt. (S. S.: Það sagði jeg aldrei.) Því get jeg ekki við gert, að hann þorir nú ekki annað en ganga frá því aftur. (S. S.: Háttv. þm. hefir reyndar ekki hrakið neitt af því, sem í greininni stendur.) Vissi jeg ekki, að renna myndi vatn úr Miklavatnsmýri, en hitt kom mjer á óvart, að það rynni upp í móti.

Þá sagði hann, að ekki væri skylda að svara hæversku annara þjóða í sama tón. Hafði hann rangt eftir mjer það, sem jeg sagði um viðurkenninguna á fullveldi Íslands.

Jeg sagði, að það væri einmitt viðurkent með því, að aðrar þjóðir sendu hingað sendiherra og byrjuðu ríkjaviðskifti hjer. eins og við hvert annað fullvalda ríki. Og nú hafa Danir einmitt sýnt okkur þá viðurkenningu fyrstir manna, með því að senda hingað sendiherra.

Þá hjelt hv. þm. (S. S.) því fram, að við hefðum ekki sendiherra hjá öðrum þjóðum en Dönum. En það er rangt; þar sem Danir fara með utanríkismál Íslands og hafa sína sendiherra í öðrum löndum, þá eru þeir um leið sendiherrar Íslands.

Menn verða að skilja þetta. Svo var líka til ætlast í sáttmálanum, og væri þá undarlegt, ef Danir væru settir hjá og enginn sendiherra væri hjá þeim fyrir Íslands hönd. En það er eins og að tala um kringlóttan ferhyrning að segja, að þeir fari með umboð okkar hjá sjálfum sjer.

Þá var mjer borið á brýn, að jeg hefði sagt rangt frá um sparnaðinn, sem sagt hefir verið að mundi vera að því, að hafa skrifstofu í Höfn, en ekki sendiherra.

Jeg býst nú við, að ekki mætti ætla skrifstofustjóra þar minni laun en 10,000 kr., eftir launum þar nú, og reyndar samkvæmt launalögunum hjer. Fulltrúi hans mundi ekki hafa minna en 6000 kr., og skrifarar 2, segjum annar 2000 kr., en hinn 1500 kr. Þar eru þá komin launin, og nema þau samtals 19,500 kr.

En þá er þess að gæta, að hingað til hefir íslenska stjórnarskrifstofan í Kaupmannahöfn haft ókeypis húsnæði. Nú mundi það ekki lengur verða. Hún yrði því að leigja 2–3 herbergi á sæmilega góðum stað, og mundi það ekki geta kostað minna en 200 kr. á mánuði, eða 2400 kr. á ári. Kostnaður er þá orðinn því sem næst 22,000 kr. En auk þess má reikna pappír og margt og margt, sem þarf á skrifstofuna, og sje það nú lagt við 22,000 kr., verður munurinn ekki meiri en nefndur hefir verið.

En það er engin blekking hjá hæstv. stjórn, þótt hún taki ekki til hærri húsaleigu en 2000 kr. fyrir sendiherrann í Kaupmannahöfn, því að auðvitað er til þess ætlast, að hann greiði af launum sínum, ef á vantar.

Þessar ákúrur allar eru því gripnar úr lausu lofti, og sparnaður þessi mundi alls ekki nema meiru en 4000 kr., eins og jeg hefi áður sagt.

Þá var því haldið fram, að jeg teldi það sama og fullveldi landsins væri strikað út, ef þessi maður yrði ekki sendur Það sagði jeg aldrei. En hitt þykir mjer líklegt, að aðrar þjóðir gleymi fljótlega fullveldisyfirlýsingunni, ef haldið verður áfram stefnu þessara tillögumanna.

Jeg stend líka við það, að jeg er sannfærður um, að meiri hluti hv. þm. í fyrra var með þessu fyrirkomulagi, þótt ekki verði fullyrt um einstöku menn.

Þá var það sagt, að ekki mundi hjálpa mikið, þótt íslenskur fullveldisfáni blaktaði á höllum úti í heimi, sem reistar væri fyrir síðasta skilding þessa fullvalda ríkis, eða eitthvað á þá leið. En við hvern er verið að tala? Það eina, sem jeg sagði, var, að íslenskur fáni ætti að blakta á sendiherrahöllum, sem Danir hafa reist, þar sem búa sendiherrar þeirra, sem um leið eru sendiherrar Íslands. Annars er það undarlegt, að menn skuli taka þetta svo sárt, að sendimaður Íslendinga í Danmörku skuli heita sendiherra. Það er þó til að sýna öllum heiminum, að Íslendingar hafa rjett til þess að fara með utanríkismál sín og hafa sendiherra hvar sem þeim líst. Og það er enn undarlegt, að menn skuli ekki vilja kosta til þess 3–4000 kr., að sá maður, er hið unga fullvalda ríki hefir fyrir sig í Danmörku, skuli hafa aðgang að öllum sendiherrum annara þjóða, en það hefir „generalkonsul“ ekki. Háttv. þm. fullvalda þjóðar vilja ekki eyða nokkrum þúsundum til þess að auglýsa fyrir öllum þjóðum fullveldi vort, en einstaka verslunafjelög eyða miklu meira fje í sendimenn, er auglýsa og útbreiða þekkingu á versluninni. Slíkan hugsanaferil get jeg ekki skilið, og er mjer nær að halda, að ef þessir háttv. þm. hugsa sig um, þá muni þeir taka aftur þessa brtt.