28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í C-deild Alþingistíðinda. (3701)

87. mál, dýralæknar

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Margt af því, sem skýrir þetta frv. er tekið fram í greinargerð þess. Eins og sjá má af frv., þá fer það fram á að fjölga dýralæknum hjer á landi um 3, eða úr 4 í 7. Það kann nú að virðast hv. deild einkennilegt að flytja þetta mál hjer, en ef betur er að gáð, kemur í ljós, að svo er ekki. Sumir vildu má ske segja, að það sje æði ólíku saman að jafna, þar sem sjeu menn og skepnur. En tilfellið er, að þar er talsvert samband á milli, og ekki svo fjarri að bera það saman, þegar um þetta mál er að ræða. Það er vert að gæta að því, í þessu sambandi, að í viðbót við þau 40 læknaembætti, sem nú eru til, eru flutt hjer á þingi 6 ný frv., 4 í hv. Nd., og 2 í hv. Ed., sem fara fram á, að bætt verði við 6 læknaembættum.

Þó hjer sje dálítið öðru máli að gegna, þá virðist ekki óeðlilegt, með tilliti til þessa, þó farið sje fram á að fjölga dýralæknum. Og liggja til þess margar ástæður. Þeir 4, sem nú eru, komast engan veginn yfir að fullnægja þörfinni. En eins og menn sjá á frv., þá er mjög hóglega farið í sakirnar um fjölgunina. Sigurður Einarsson, dýralæknir ú Akureyri, hefir ritað um þetta mál, og þar ætlast hann til, að dýralæknar sjeu jafnmargir og aðrir læknar, eða um 40. Enn fremur hefir elsti dýralæknir landsins, Magnús Einarsson, látið sitt álit uppi, og telur hann hæfilegt, að dýralæknisembættin sjeu 12. — En hjer í þessu frv. er að eins farið fram á, að þau verði 7.

Það, sem einkanlega kom okkur flm. til að flytja þetta mál, er, að bæði sýslunefnd Árnessýslu og þingmálafundur hafa skorað á Alþingi að sjá um, að stofnað verði dýralæknisembætti austanfjalls. En við nánari athugun á málinu komumst við að þeirri niðurstöðu, að það væri engu síður þörf fyrir dýralækni sumstaðar annarsstaðar, og því er farið fram á í frv., að stofnað sje embætti, ekki einungis austanfjalls, heldur á tveim stöðum öðrum.

Þetta er sú lægsta dýralæknatala, sem jeg get hugsað mjer. Hvað snertir kostnað, er þetta hefir í för með sjer, þá kann hann að verða nokkur, þegar þar að kemur. En fyrst um sinn mun þetta verða útgjaldalaust fyrir landssjóð, því það liða sjálfsagt 4–6 ár þangað til þeir, er legðu stund á þessa grein, hefðu lokið námi.

Nú kann einhver að segja sem svo, til hvers sje verið að semja lög og stofna nú dýralæknaembætti, þegar enginn útlærður dýralæknir er til. — Þar til er því að svara, eins og segir í greinargerð fyrir frv., að þetta ýtir undir menn og hvetur þá til þess að leggja stund á þessa námsgrein. Jeg er á þeirri skoðun, að svo framarlega sem ekkert verður gert í þessu efni, þá fari enginn að læra til dýralæknis. Öðru máli er að gegna, verði þetta frv. samþ. Þá tel jeg vafalaust, að það mundi koma að gagni í þessu skyni og hvetja efnilega unga menn til námsins, er svo yrðu tilbúnir til að setjast í embættin eftir 4–6 ár. Um hitt þarf ekki að deila, að nauðsyn á að fjölga dýralæknum fer vaxandi með ári hverju. Eftir því, sem skepnur hækka í verði, eykst þörfin. Það er t. d. mikill munur á verðlagi nú og fyrir svo sem 10 árum. Þá kostaði kýrin ekki nema 75–100 kr., en nú frá 6–800 kr. Og svipað má segja um hesta.

Með tilliti til þessarar gífurlegu hækkunar verður tilfinnanlegt fyrir bónda að missa þó ekki sje nema unglamb á vori, hvað þá stórgripi. Þegar svo er komið, leggja menn sig miklu meir í framkróka til að halda skepnunum og lækna þær, sem sýkjast. Jeg skal játa, að það er dálítið óviðfeldið að bera hjer fram frv., sem fer fram á fjölgun embætta. En það er hin knýjandi nauðsyn, sem rekur á eftir með það. Þetta benti jeg einnig kjósendum okkar á, þegar þeir skoruðu á okkur að flytja þetta mál eða frv., og sagði þeim, að það kæmi í bága við þá skoðun, er víða ríkir, að nær sje að fækka embættum en fjölga þeim. En jeg fjekk það svar, að það mætti fækka þeim á öðrum sviðum. Og er jeg spurði, hvar helst mætti bera niður í þessu efni, var svarið óhikað, að það mætti fækka prestunum. Og þetta gæti verið bending til þeirra, sem nú eru að flytja frumvörp um, að þeim verði fjölgað. — En hvað sem nú þessu líður, þá vona jeg, að þessu frv. verði vel tekið og verði látið ganga til landbúnaðarnefndar að 1. umr. lokinni.