06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í C-deild Alþingistíðinda. (3705)

87. mál, dýralæknar

3705Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Nefndin leggur til, að frv. þetta verði samþ. með lítils háttar breytingum, sem jeg skal nú víkja að.

Þá er fyrst að geta breytinganna, sem nefndin hefir gert á 2. gr., um laun dýralækna. Henni þótti eiga betur við, að laun dýralækna sjeu ákveðin í hinum almennu launalögum, og breytist greinin í þá átt, enda hefir stjórnin tekið þá upp í frv. til laga um laun embættismanna.

Í öðru lagi hefir nefndin lagt það til, eftir tilmælum dýralæknisins hjer í Reykjavík, að þegar dýralæknir ferðast í þágu einstakra manna og fær ekki ókeypis fararbeina, samkvæmt 4. gr. frv., skuli honum vera heimilt að reikna sjer 5 kr. á dag, auk ferðakostnaðar, samkvæmt 3. gr.

Aðrar breytingar hefir nefndin ekki gert við frv.

En þá er fram komin brtt. frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og hv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Hún fer í þá átt, að landsdýralæknir skuli skyldur til að halda uppi 1–2 mánaða námsskeiði á vori hverju fyrir þá, sem vilji kynna sjer meðferð algengustu alidýrasjúkdóma.

Nefndin hefir ekki tekið afstöðu til þessa atriðis. Hins vegar skal jeg geta þess, að jeg er sjálfur heldur mótfallinn þessari till. og tel hana varhugaverða. í öðru lagi skal jeg láta þess getið, að dýralæknirinn hjer í Reykjavík leggur á móti henni og færir ástæður fyrir því. (G. Sv.: Hverjar eru þær?). Hann kvaðst hafa skrifað hv. þingm. brjef í fyrra, og gert þar grein fyrir ástæðum sínum. En þær eru í stuttu máli þessar. Hann hyggur, að kenslan verði ófullnægjandi, þar sem námsskeiðstíminn er svo stuttur, og að þetta geti leitt til þess að fjölga skottulæknum, er færu óvarlega með sína þekkingu á dýrasjúkdómum, og gerðu með því ógagn eða jafnvel skaða.