06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í C-deild Alþingistíðinda. (3706)

87. mál, dýralæknar

Pjetur Ottesen:

Eftir því, sem mjer kemur frv. þetta fyrir sjónir, hygg jeg, að það sje að byrja á neglunni að samþ. það, meðan menn í þessi embætti vantar. Því hefir að vísu verið haldið fram, að menn mundu fara að gefa sig við náminu frekar en áður, er þeim væri opnuð leið til embættis. — Jeg skal fúslega játa, að dýralæknar þeir, sem hjer eru, hafa bæði beinlínis og óbeinlínis, og á jeg þar við það, að ýmsir menn hafi lært af þeim ýmiskonar ráð gegn helstu búfjársjúkdómum, orðið að miklu liði. En hins vegar sje jeg ekki beina ástæðu til að vera nú að stofna hin umræddu dýralæknaembætti. — En mjer virðist, að brtt. á þgskj. 202 muni, ef samþ. verður, bæta úr þeim skorti, sem nú þykir vera á dýralæknum. Það gæti orðið að mjög miklu liði, ef mönnum væri veitt tilsögn í helstu alidýrasjúkdómum, frekar en verið hefir. Þeir, sem fengið hefðu einhverja undirstöðuþekkingu í þeim efnum, gætu komið að miklu gagni, að minsta kosti er um smærri sjúkdóma væri að ræða. En þegar kunnátta þeirra þryti, gætu þeir náð tali af dýralækni, þar sem símasamband væri, er svo stæði á, gefið honum upplýsingar um sjúkdóminn og leitað ráða hjá honum.

Jeg hygg því, að jafnvel 1–2 mánaða námsskeið, sem ef til vill mætti hafa í sambandi við búnaðarskólana, á ári hverju, gætu komið að mjög góðu haldi, og tel óþarft, að gengið sje lengra að þessu sinni. Jeg mun þess vegna greiða atkv. á móti frv.