06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í C-deild Alþingistíðinda. (3707)

87. mál, dýralæknar

Gísli Sveinsson:

Háttv. frsm. (S. S.) lýsti því yfir, að hann væri mótfallinn brtt. þeirri, sem jeg og 1. þm. Skagf. (M. G.) höfum leyft oss að koma með, en nefndina kvað hann vera óbundna. Hann gat þess líka, að dýralæknirinn hjer í Reykjavík væri brtt. okkar mótfallinn.

Aðalástæðu dýralæknis kvað hann vera þá, og það var í raun og veru eina ástæðan, sem hann tilfærði gegn brtt. okkar, að hún mundi verða til þess að klekja út „skottulæknum“ í þessari grein. Þessi ástæða, sem dýralæknir og ljet í ljós í fyrra, eða hitt eð fyrra, að menn mundu rísa upp í landinu, sem vildu sýnast vera dýralæknar, ef þeir hefðu verið á námsskeiði, er að mínu viti á engum rökum bygð, enda er þar litið á málið frá embættissjónarmiði þessa manns. Það er auðskilið, frá hans sjónarmiði, að hann vilji ekki, að aðrir fáist við dýralækningar en sjerfræðingar í þeirri grein. En það getur verið full ástæða til, að fleiri fáist við að liðsinna skepnum en sjerfræðingar einir. Slíkir menn hafa verið hjer á landi og komið oft að góðu liði, þótt ólærðir væru. En þeim fer nú óðum fækkandi.

Jeg hygg, að námsskeiðið mundi koma að mjög góðu haldi. Hjer er ekki heldur um neitt stórfelt að ræða. — Það er að eins gert ráð fyrir, að mönnum sje veitt leiðbeining í meðferð einfaldra sjúkdóma, meiðsla o. þ u. 1. Gera má ráð fyrir, að þeir sæki einkum námsskeið þetta, sem fengið hafa einhverja undirstöðumentun, t. d. búfræðingar, sem hefðu áhuga á þessum efnum. — Jeg sje þess vegna ekki betur en brtt. okkar eigi fullan rjett á sjer, enda er mönnum þetta að vonum mikið áhugamál úti um hjeruðin, ekki síst þar, sem afskekt er.