06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í C-deild Alþingistíðinda. (3708)

87. mál, dýralæknar

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Það var ekkert nýtt í ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.), sem jeg hefi ástæðu til að mótmæla. Frv. er borið fram, eins og jeg hefi áður tekið fram, til þess, meðal annars, að hvetja menn til að leggja stund á þessa fræðigrein. Og samþ. frv. mundi verða til þess, að menn færu að læra dýralækningar.

Um brtt. háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), og ummæli hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), skal jeg láta þess getið, að komið gæti til mála, að haldið væri námsskeið, þar sem mönnum væri kent að fara með vissa sjúkdóma, t. d. doða í kúm. Einnig kent að gelda hesta. En annars held jeg, að menn gætu misbrúkað þá litlu kunnáttu, sem þeir fengju. Þeir mundu ætla sjer meira en þeir væru menn fyrir eða hefðu kunnáttu og áhöld til. Jeg vil benda á það til samanburðar, að meðan mannalæknar voru fáir hjer á landi, úði og grúði af skottulæknum. En þeir hafa smám saman horfið úr sögunni með fjölgun lærðra lækna. — Þetta sýnir, að almenningur hefir kunnað að meta þekkingu lærðu læknanna. Jafnhliða var og hafin barátta gegn skottulæknunum, og var mikið rifist um þá hjer áður á þingi. Og nú er svo komið, að þeir, sem fást við lækningar og ekki hafa gengið lærða veginn, fá sjerstakt leyfi til þess, ef þeir hafa aflað sjer nauðsynlegrar kunnáttu í því efni. Og í sambandi við þetta vil jeg benda tillögumönnum á að bera fram viðaukatill. þess efnis, að þeim einum skuli heimilt að stunda dýralækningar af námsskeiðsnemendunum, sem fengju sjerstakt leyfi til þess hjá landsdýralækni, að námi loknu.