21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Bjarni Jónsson:

Mjer þótti vænt um, er jeg heyrði hv. frsm. nefndarinnar (J. J.) segja það sem loforð, að stjórnin myndi gefa þessi svör, sem jeg hefi beiðst. Jeg sje þarna hæstv. forsætisráðh. (J. M.). Ætti hann nú að gera það. Mjer hefði þótt gaman að fá skýr svör við því, hvers vegna stjórninni þótti ástæða til að taka hrossasöluna í sínar hendur. Því að ástæðan um skiprúmið er alls ekki nægileg. Sama skiprúm, sem stjórnin getur útvegað sjálfri sjer, getur hún og útvegað öðrum, sem hún vill hjálpa. Það er því engin ástæða. Stjórnin gat blátt áfram auglýst, að hún myndi hjálpa mönnum um farkost fyrir hross. Það var enn einfaldara. Var því ekki ástæða til að taka söluna í sínar hendur, en hitt fallegt, að vilja hjálpa mönnum að selja hross sín. Enda virtist það og sjálfsagt, þar sem það er alkunna, að stjórnin hefir haft ráð yfir öllum skipakosti landsins á styrjaldartímunum, og enn er ástandið ekki svo breytt, að menn hafi alment ráð á skipakosti sjálfir, enda eru ekki nema fáir dagar síðan friður var saminn.

Jeg vil ekki vanþakka útflutningsnefnd söluna, en það þykir mjer þó undarlegt við gerðir hennar, að samningar skyldu endilega þurfa að gerast svo fljótt. Því að sje þessi kaupskapur Dana sprottinn af þörf á íslenskum hestum, þá átti hún ekki að minka, og þá gerði ekkert til, þótt fullnaðarsamningar hefðu dregist fram á þing. Því að óhætt mun mega fullyrða, að Dönum hefði ekki boðist hestar annarsstaðar frá, sem líkir eru þeim íslensku. Þörfin hefði því verið söm, þótt lengra hefði liðið, og jafnvel gæti svo hafa farið, að Danir hefðu frekar haft hitann í haldinu, það er að segja, ef þetta hefir verið gert til að fylla þörf Dana.

En hafi Danir keypt hesta vora af eintómum bróðurkærleika, til þess að vjer yrðum ekki innisvelta með hesta vora, þá var sjálfsagt að grípa gæsina, meðan hún gafst.

Ef litið er á mál þetta frá verslunarsjónarmiði, þá var sjálfsagt að bíða. Hjer er og önnur ástæða. Það gat vel opnast markaður fyrir hesta annarsstaðar, þegar búið var að semja frið. Og þótt ekki þurfi að taka Sljesvík til dæmis um hestaþörf í Þýskalandi, þá er því ekki að neita, að þörfin á hestum í Þýskalandi hlýtur að vera mikil nú. Vitanlegt er, að þörfin á þeim hefir verið mikil í stríðinu, og verð á hestum í Danmörku hefir komist svo hátt, af því að eftirspurnin var svo mikil af Þjóðverja hálfu. En sakir þess, að sú hækkun stafaði af stríðinu, þá þarf ekki verðlækkun á dönskum hestum að standa í beinu sambandi við verðlækkun á íslenskum. Verð á íslenskum hestum gat haldist fullkomlega, þótt Þjóðverjar hættu að kaupa af Dönum þeirra stóru hesta. Það er alt önnur tegund hesta, og verðlag á þeim hlýðir alt öðrum lögum.

En þó að jeg sje nú að gera mjer þessa skraddaraþanka, þá getur vel verið, að færa megi svo djúp og rík rök að nauðsyn þessarar aðferðar, að telja verði hana alveg sjálfsagða. Fái jeg þessi svör nú, þá mun jeg ekki gera fyrirspurn þá, sem jeg hafði hugsað mjer.