06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í C-deild Alþingistíðinda. (3713)

87. mál, dýralæknar

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg verð stuttlega að minnast á einstöku atriði, sem komið hafa fram í ræðum manna.

Athugasemd hv. þm. Barð. (H. K.) um það, hvenær og hvernig lögin ættu að koma til framkvæmda, mun nefndin taka til íhugunar. Fyrir henni vakti það, að það fyrirkomulag, sem nú er, skyldi haldast óbreytt þangað til nýr læknir kæmi í það og það hjerað, og að þessi lög ættu því ekki að hafa nein áhrif á laun hinna núverandi dýralækna fram yfir það, sem beint verður tiltekið í hinum almennu launalögum. En vera má, að tryggilegra sje að taka þetta nánara fram, og mun nefndin þá koma með breytingu í þá átt, ef henni sýnist ástæða til þess. Um brtt á þgskj. 202 ætla jeg ekki margt að ræða fram yfir það, sem þegar er komið. Það er satt, að námsskeið Búnaðarfjelagsins hafa orðið að góðu liði, og kann jeg hv. þm. Borgf. (P. O.) þökk fyrir, að hann kann að meta það. Jeg er hv. þm. (P. O.) einnig sammála um það, að æskilegt væri, að dýralæknar veittu mönnum tilsögn í því að fara með meiðsli, og að þeir leiðbeindu mönnum og í meðferð annara dýrasjúkdóma, sem almenningi ætti ekki að vera ofvaxið að fást við, og það gæti komið til mála að gera þeim að skyldu. Hins vegar er jeg hræddur um, að hin fyrirhuguðu námskeið mundi gera suma af þeim, er þau sækja, að skottulæknum. Sumir þeirra mundu að sjálfsögðu gera mikið gagn, engu síður en ýmsir ólærðir menn, sem við dýralækningar hafa fengist. Og síst skal jeg neita því, að ólærðum mönnum hafi stundum heppnast vel lækningar á mönnum og dýrum. En því miður eru og til sorgleg dæmi hins gagnstæða. Það er hverju orði sannara hjá háttv. þm. Borgf. (P. O.), að það er lengstum tíðara hjer á þingi, að búin sjeu til embætti handa mönnum, sem fyrir eru. En í þetta sinn teljum vjer nauðsynlegt að fara gagnstæða leið, þá leið að setja á stofn embætti, til þess að laða menn til þess að búa sig undir að geta tekið við þeim. Hingað til hafa dýralæknaembættin verið svo illa launuð, að orðið hefir að kaupa menn til að stunda dýralækninganám.

Háttv. þm. (P. O.) hafði það eftir mjer, að jeg hefði einhvern tíma sagt, að lærðu læknarnir mundu hafa sálgað eins mörgum og þeir hefðu bjargað. Það er satt, að læknar eru misjafnir, þótt lærðir eigi að heita, en engar skýrslur eru til um það, hve mörgum skottulæknar muni hafa sálgað fyr á tímum. Það eru ekki meðmæli með skottulæknunmn, þótt lærðu læknunum hafi oft mistekist sínar lækningar.