08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í C-deild Alþingistíðinda. (3725)

87. mál, dýralæknar

Þórarinn Jónsson:

Umræðurnar hafa horfið að nauðsyninni á að bæta úr þeim erfiðleikum, sem nú eru á að ná í dýralækni.

Jeg skal játa, að þeir verða fleiri eftir ákvæðum frv., sem eiga kost á að ná í lækni, heldur en nú á sjer stað. En þótt dýralæknum yrði fjölgað upp í 7, þá fer fjarri, að sú tala fullnægi almenningsþörfum. Það er til lítils að kenna mjer þá rökfræði, að læknir, sem sæti í Skagafirði, gæti bjargað grip úr hættu, er veiktist í vesturhluta Húnavatnssýslu, á annan hátt en með ráðleggingum símleiðis, alveg eins og nú á sjer stað.

Jeg sje þess vegna ekki, að frv. þetta bæti úr þeirri þörf, sem nú er á fjölgun dýralækna. Þar að auki er þess að gæta, að sú dýralæknaskipun, sem gert er ráð fyrir í frv., gæti breyst af ýmsum ástæðum í framtíðinni, svo að fyrirkomulagið yrði alt annað.

Hins vegar álít jeg, að brtt. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og 1. þm. Skagf. (M. G.) gæti orðið til bóta. En jeg fæ ekki sjeð, að frv. styrki að nokkru leyti landbúnaðinn. Aðalgagn dýralæknanna er, og verður fyrst um sinn lengi, af ritum þeirra um algengustu og hættulegustu húsdýrasjúkdóma. Er því sjerstök nauðsyn á þeim, og þarf ekki að fjölga dýralæknisembættum til þess, heldur að eins að fá hæfa menn til þess að skrifa um sjúkdómana.