08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í C-deild Alþingistíðinda. (3726)

87. mál, dýralæknar

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi hugsað mjer, að ef löggjöfinni væri á annað borð skylt að styrkja atvinnuvegina, þá væri það eigi síst með því móti, að tryggja sem öruggast líf og heilsu manna og dýra.

Nú er það alment álit, að einstaklingunum sje ofvaxið að halda mannalækna; þess vegna eru þeir launaðir af opinberu fje. En sama máli gegnir um dýralæknana. Ríkið verður að kosta þá, ef bændur eiga að geta klifið þann kostnað, sem læknahaldið hefir í för með sjer.

Hitt tel jeg vera miklu meira vafamál, hvort beri að styrkja atvinnuvegina með beinu fjárframlagi. En það er ekkert vafamál, að dýralæknum ber að fjölga.

Aftur á móti get jeg verið sammála hv. 1. þm. Húnv (Þór. J.) um það, að sú læknatala, sem farið er fram á í frv., fullnægi ekki þörfum landsmanna. Þó er það töluverð viðbót að fjölga þeim úr 4 upp í 7, og mörg hjeruð mundu hafa gagn af þeirri viðbót.

Þess vegna hygg jeg það alveg rangt af bændum að leggjast móti þessu. Þetta tala jeg ekki frá sjónarmiði kjósenda minna nje fyrir þá, því að þeim er engin bót að frv. þessu. Dýralæknir situr nú í Stykkishólmi, og þeim verður hægast að ná í hann þar, jafnt eftir að frv. þetta yrði að lögum sem áður. En jeg tala fyrir hönd bændastjettarinnar alment, sem mundi telja sjer þetta mikla bót, þótt eigi sje fullnaðarbót, og taka lögunum fegins hendi. Hvað sem hv. þingbændur segja, þá er jeg viss um, að meiri hluti bænda hjer í landi mundi greiða atkvæði með málinu, ef til þeirra kasta kæmi.