08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í C-deild Alþingistíðinda. (3730)

87. mál, dýralæknar

Jón Jónsson:

Það var sagt í umræðunum, að þótt þessi breyting á dýralæknalögunum kæmist á, væru menn ekki bættari með að bjarga búpening sínum fyrir það. Þetta er ekki rjett. Jeg vil spyrja: Erum við ekki nokkru betur settir, eftir að við höfum fengið fjóra dýralækna, en á meðan að eins var einn dýralæknir hjer í landi. Vjer höfum nú dýralækni á Akureyri. Hann hefir að vísu stóru hjeraði að þjóna; þó eru menn í umdæmi hans ólíku betur settir en á meðan ekki var í annað hús að venda en til dýralæknisins í Reykjavík. Sama má segja um dýralækninn á Austurlandi. Hann er að vísu búsettur á Reyðarfirði, en þó geta Hjeraðsbúar haft hans mikil not. Við minnumst þess frá gamalli tíð, að fáir voru mannalæknar hjer á landi, ekki fleiri en dýralæknar nú, og þótti þó betra að hafa þá en ekki. Jeg man svo langt, að menn af Fljótsdalshjeraði, og víðar að, urðu að leita læknis á Eskifjörð, og kom það oft að góðu haldi. Eins geta dýralæknar oft bjargað skepnum, ef fjarlægðin er ekki því meiri, og því fleirum, sem þeir eru fleiri, og eftir því verði, sem nú er á stórgripum, þarf dýralæknir ekki að bjarga mörgum þeirra, til þess að verð þeirra svari til launa hans. Það hefði með jafnmiklum rjetti mátt segja, þegar smám saman var verið að fjölga mannalæknum, að það væri gagnslaust, en svo mundu menn nú á dögum ekki dæma um það. En þó að ekki sje hægt að jafna saman mannslífi og skepnulífi, er þó skaðinn í báðum tilfellunum auðsær og tilfinnanlegur. En hjer er á fleira að líta. Það ber ekki sjaldan við, að ýmiskonar pest kemur upp í fjenaði, og gerir stundum stórtjón. — Væri þá gott og gagnlegt að hafa dýralækni í nánd, svo að hann gæti rannsakað sjúkdóminn og lagt ráð á; má telja víst, að oft mundi verða stórgagn að þessu. Það er oft og tíðum lítið gagn að því, að skrifa dýralækni, eða tala við hann í síma, um skepnusjúkdóma; það getur einatt verið nauðsynlegt, að hann komi sjálfur til og athugi sjúkdóminn á skepnunni, eða skepnunum, og því fleiri sem læknarnir eru, því auðveldara og óerfiðara er að koma þessu við. Jeg sje ekki betur en það sje rangt að fella frv. Hjer ekki um annað að ræða en að fjölga dýralæknum úr 4 upp í 7. Það er því ekki rjett að fella frv., nema því að eins, að menn telji ekki þörf á að fjölga dýralæknunum; en það þykir mjer einkennilegt, ef meginþorri bænda lítur þannig á málið, og jeg trúi því ekki, meðan ekki liggja gögn fyrir því.