08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í C-deild Alþingistíðinda. (3732)

87. mál, dýralæknar

Þórarinn Jónsson:

Heiðraðir meðmælendur frv. þessa ganga út frá því enn, sem áður, að hve nær sem skepna sýkist muni dýralæknir verða sóttur. Hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) tók það fram, að það væru margir kvillar í sauðfje, sem þyrfti að rannsaka; en jeg vil nú halda því fram, að það þurfi ekki að rannsaka hverja kind eða hverja skepnu, sem kvillann hefir, heldur nægi það, þegar um almenna kvilla og útbreidda er að ræða, að grafast fyrir rætur þeirra og leita að ráðum gegn þeim, en til þess er varla þörf á að rannsaka hverja einstaka sýkta skepnu nje heldur föng á því. Jeg neita því ekki, að í sjálfu sjer sje þörf á að fjölga dýralæknum með tímanum. En þótt þeir yrðu 7, gera þeir litlu meira gagn en 4. Það eru að eins örfáir menn kringum dýralæknana, sem gerlegt er fyrir að sækja dýralækni, þótt skepna sýkist.

Það er hægt að nota dýralækna þá, sem eru, þótt ekki sjeu þeir fleiri, til að gera almennar ráðstafanir. En ef einstakir menn þurfa að leita ráða hjá þeim, þá er oftsinnis hægt að tala við þá í síma, þannig að að góðu haldi kemur.

Ef fara ætti að meta sjúkdóma dýra jafnt og sjúkdóma manna, þyrfti að fjölga dýralæknunum svo, að þeir yrðu jafnmargir og mannalæknarnir. En þó að skepnur sjeu dýrar nú, þá er mannslífið ekki mikils metið, ef eigi á að telja það töluvert meira virði en skepnuna.

Enn má taka það fram, að umdæmaskifting sú, sem frv. gerir ráð fyrir, mun ekki vera sem heppilegust.

Það, sem jeg hefi sagt í máli þessu, ber ekki svo að skilja, að jeg hafi í sjálfu sjer á móti dýralæknunum, en jeg hygg, að hægt sje í bráð að komast af með dýralækna þá, sem nú eru, og að það muni ekki verða til að bjarga mörgum skepnum, þótt þeim sje fjölgað eins og frv. fer fram á. Jeg skýt því til háttv. þm. Dala. (B. J.), hvort honum þyki sennilegt, þótt belja veikist hjá fátæklingi langt frá dýralækni, t. d. 100 km„ að hann muni geta ráðist í að sækja lækni til að bjarga kúnni.