31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í C-deild Alþingistíðinda. (3743)

100. mál, sala á nokkrum hluta heimalands Auðkúlu

Matthías Ólafsson:

Hv. þm. (Þór. J.) gat þess, að mjer mundi ekki verða það langvint gleðiefni, að Hafnir á Skagaströnd voru eigi seldar í fyrra. Jeg vona, að sú spá rætist aldrei. Að vísu verður því ekki neitað, að til eru þeir menn, sem gera alt til að níða niður jarðir þær, sem þeir ásælast, í því skyni, að neyða landsstjórnina til að selja þær; en jeg vona, að sem fæstum verði kápan úr því klæðinu.

Í sjálfu sjer hefi jeg ekki á móti, að jörðum sje skift í sundur, þar sem svo hagar til, því að nú mun smábúskapur bera sig best og einyrkjar komast best áfram á þessum fólkseklu- og kauphæðartímum, en engu að síður er jeg, sem fyr, mótfallinn þjóðjarðasölu, hvort heldur um er að ræða heilar jarðir eða hluta úr þeim.

Það er ástæðulaust að bregða mjer um, að jeg hafi barið lóminn fyrir sjávarútveginn; jeg hefi reynt að verja hann fyrir ranglátum álögum, röngu álasi og annari viðleitni að hnekkja honum. Hann er nú aðalhjálparhella landssjóðs, og frá honum stafa aðaltekjur landsins beint og óbeint, enda tel jeg rjett, að hann greiði sinn drjúga skerf, því hann gefur mikið í aðra hönd, þótt miklu sje til kostað. Honum svipar til stórbónda, sem mikið hefir í veltunni. — Þetta kalla jeg ekki sje að berja lóminn, nje heldur hitt, þótt jeg reyni að sporna við því, að þessi tekjulind sje stífluð með hóflausuin álögum og óskynsamlegum ákvæðum.