31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í C-deild Alþingistíðinda. (3744)

100. mál, sala á nokkrum hluta heimalands Auðkúlu

Sigurður Sigurðsson:

Jeg tek undir með hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að eins og mál þetta er í garðinn búið, þá eigi það ekkert erindi inn á þing, og því síður ætti að hafa svo mikið við það, að því sje skipað í nefnd. Satt að segja stingur það mig ávalt illa, þegar farið er fram á að selja opinberar jarðeignir, hvað þá þegar á að fara að lima þær í sundur, sem lifandi líkama, og selja þær í smápörtum. Slíkt er hin argvitugasta aðferð í þjóðjarðasölumálinu. það gæti ef til vill komið til mála að skifta í sundur einstaka prestssetri, en hitt alls eigi, að selja parta úr því, og það ef til vill bestu sneiðarnar. Það eru aðrar leiðir miklu farsælli í þessu máli en að lima jarðirnar sundur og selja limina hvern fyrir sig. Ekki mælir það með því, að frv. þetta fái framgang, að það er flutt fram þvert ofan í mótmæli jarðarumráðandans. Ekki hefir heldur verið leitað álits kirkjustjórnarinnar um málið. Og jeg þori að fullyrða, að hefði það verið borið undir biskup, mundi hann hafa lagt eindregið á móti því. Sýnist mjer það einsætt, að deildin ætti að fella frv. þetta frá 2. umr.