31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í C-deild Alþingistíðinda. (3745)

100. mál, sala á nokkrum hluta heimalands Auðkúlu

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) mörgu, því að fátt var svaravert í ræðu hans. Þó skal jeg minnast á eitt atriði. Það var á honum að heyra, að hann væri því hlyntur, að búskapur sveitabænda væri mestmegnis einyrkjabúskapur. Mundi hv. þm. (M. Ó.) vilja heimfæra þessa hugmynd upp á sjávarútveginn og telja það heppilegast og: arðvænlegast, að sjómennirnir væru að bauka hver út af fyrir sig einir á bát. En eins og jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. (M. Ó.) teldi það litla þrifnaðarvon fyrir sjávarútveginn, ef hann væri rekinn á þann veg, eins mundu framfarir í landbúnaði verða smástigar, ef stórbú væru eigi til að beitast fyrir þeim.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) var svo sem ekki því að afla sjer upplýsinga um málið, því að hann vildi þegar fella það; það er nú honum líkt að hirða ekki um að sækja fræðslu til annara, heldur fara eftir sínu höfði. Jeg vil aftur á móti, að málið sje sett í nefnd, svo að það verði upplýst og skoðað sem best. Það er jafnvel eigi vonlaust um, að málið skýrðist þá dálítið fyrir hv. þm. (S. S.).

Hv. þm. (S. S.) talaði um, að það væri líkt á komið að skifta í sundur jörð og lima sundur lifandi líkama. Rjett er nú það. En einhvern tíma var sú tíðin, að hann leit öðruvísi á þetta mál; það var þegar hann var að berjast fyrir grasbýlahugmynd sinni; þá fanst honum ekki eins mikið um þessa sundurlimun, þegar hann gerði hana að höfuðlífsbaráttu sinni, en árangurslaust, eins og fleira. Hann segist að vísu ekki vilja láta selja jarðarpartana, en sundurlimunin er þó hin sama. Það er hugsunarvilla hjá hv. þm. (S. S.) að halda öðru fram.

Hv. þm. (S. S.) kvaðst vera algerlega á móti frv. þessu, og undrar það mig síst. Jeg er ekki heldur sjerlega hlyntur sundurbútun jarða. En af því að jeg hefi orðið þess áskynja, að það er almenn ósk, að býlum sje fjölgað í landinu, þá gefur þetta frv. beina ástæðu til þess, að þetta mál sje tekið til skoðunar, og held jeg því enn fast við það, að það sje fengið nefnd til athugunar. Það vill svo vel til, að ábúandi Auðkúlu er staddur hjer, og vona jeg, að nefndin nái tali af honum, leiti upplýsinga hjá honum og fái að heyra skoðun hans á málinu.