31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í C-deild Alþingistíðinda. (3746)

100. mál, sala á nokkrum hluta heimalands Auðkúlu

Sigurður Sigurðsson:

Hv. flm. (Þór. J.) sagði, að jeg hefði gert það að lífsstarfi mínu að berjast fyrir grasbýlastofnun. Ef hann hefir lesið það, sem jeg hefi skrifað um það mál, hlýtur hann, eftir þessu, að hafa lesið það eins og sagt er að viss persóna lesi biblíuna. Jeg hefi alls eigi verið að berjast fyrir að koma upp grasbýlum, eins og þau tíðkast erlendis, því jeg held, að þau eigi ekki hjer við. En jeg hefi haldið því fram, að eins og hjer háttar, gæti það komið til mála að skifta sumum jörðum sundur, einkum þeim, sem illa eru setnar. En jeg hefi aldrei haldið því fram, að það ætti að selja þessa jarðarparta Pjetri eða Páli. Fjarri fer því. Hjer gæti það komið til mála, ef um semst milli jarðarumráðanda og þess, sem æskir að fá jarðarskikann keyptan, að hann fengi hann leigðan, og það ef til vill á erfðafestu, en ekki keyptan. Þetta frv. á því alls eigi að fara lengra. Ef sú stefna yrði tekin, að leigja hlut úr Auðkúlulandi, þá yrði að fara aðra leið í þessu máli og bera fram nýtt frv. um það.