21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í C-deild Alþingistíðinda. (3753)

131. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Eins og sjá má af greinargerðinni fyrir frv. þessu, er það borið fram eftir ósk bæjarstjórnarinnar í Reykjavík. En að það er eigi komið fyr fram stafar af því, að bæjarstjórnin fór þess svo seint á leit. Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um málið nú, en vísa til greinargerðar þeirrar, er frv. fylgdi, þegar það var lagt fyrir þingið næst áður.

Það er alveg rjett, sem bæjarstjórnin segir, að niðurjöfnunarfyrirkomulagið eins og það er nú er alveg ófullnægjandi í jafnstórri borg og Reykjavík er orðin, og mun því ekki verða á móti mælt. Jeg vænti þess, að þótt frv. þetta komi seint fram, muni þó verða unt að afgreiða það frá þinginu; byggi jeg það einkum á því, að þegar það var hjer fyrir áður, var það allmikið athugað og undirbúið af allsherjarnefnd, og býst jeg við, að sá starfi geti nú komið að miklum notum og muni flýta mjög fyrir málinu. Óska jeg, að málinu sje nú og vísað til allsherjarnefndar hjer í deild, og að hún fái svo allsherjarnefnd Ed. til að vinna að því með sjer; mundi það flýta mjög fyrir málinu, ef allsherjarnefnd Ed. hefði kynt sjer það, þegar þangað kæmi. Ef þessi vinnuaðferð verður ekki höfð, hefi jeg minni von um, að málið fái framgang að þessu sinni; væri það þó illa, fyrir því að bæjarstjórninni er það áhugamál, að frv. þetta verði sem fyrst að lögum.

Jeg vona, að hv. þingdm. þykkist ekki við það, hvað málið var seint borið fram, nje láti það gjalda þess.